Kjalvegur hinn forni

Þórður Höskuldsson


2. Hveravellir-Hvítárnes (Kjalvegur hinn forni)


Inngangur
Þegar ekið er á milli Suður- og Norðurlands um Kjöl má segja að ekið sé um gróðurlaust land. Fyrir tíma bílaaldar, meðan allir fóru um á hestum, lá leiðin hins vegar mun vestar, nær Langjökli enda er sú leið mun betur gróin. Um þær slóðir liggur gönguleið okkar. Þótt ganga um Kjalveg geti vart talist eins tilkomumikil og Laugavegsganga hefur hún sína töfra engu að síður. Landið er ekki eins mishæðótt og því auðveldara yfirferðar. Margir halda því fram að Kjalarganga sé góður undirbúningur fyrir Laugavegsgöngu. Nokkuð er sama hvort menn hefja gönguna í Hvítárnesi eða Hveravöllum. Í þessu yfirliti höfum við valið að byrja á Hveravöllum. Hægt er að ganga leiðina á þremur dögum en oft er dvalið tvær nætur í skálanum við Þverbrekknamúla.


1. áfangi: Hveravellir - Þjófadalir
Vegalengd 12 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt hækkun 70m
Á Hveravöllum eru tveir skálar, annar var reistur 1937 en hinn 1980. (66 gistirými, GPS 64°51.910 - 19°33.150) Svæðið er í u.þ.b. 600m hæð. Áður en staðurinn er yfirgefinn er sjálfsagt að gefa sér tíma til að ganga um hverasvæðið. Óvíða á Íslandi eru jafn margbreytilegir hverir og þar. Frá Hveravöllum er fyrst gengið í suðvestur þar til komið er suður fyrir Stélbratt og suður í Sóleyjardali, stundum nefndir Jökulvellir. Eftir það liggur leiðin næstum beint í suður á Þröskuld austan Þjófadala. Þaðan er stutt í skálann, sem reistur var 1939. (12 gistirými, GPS 64°48.900 - 19°42.510) Á þessum slóðum er Rauðkollur hæstur fjalla 1075m. Allt er svæðið ákaflega vinalegt, vaxið gras- og lynggróðri.

2. áfangi: Þjófadalir - Þverbrekknamúli
Vegalengd 13 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt lækkun 80 m
Nú er gengið í suðvestur á milli Þverfells og Þjófafells og út úr Þjófadölum. Síðan er gengið í suðurjaðri Kjalhrauns með Fúlukvísl á hægri hönd. Mikilúðlegt Hrútfellið er sunnan kvíslarinnar. Á þessum slóðum rennur Fúlakvísl í mjög þröngu gljúfri, sem hún hefur grafið í Kjalhraun. Lítil göngubrú er á henni á móts við Múlana. Yfir hana förum við, síðan upp á Múlana og suður í skálann sunnan við Þverbrekknamúla, en þar var byggður skáli 1980. (20 gistirými, GPS 64°43.100 - 19°36.860) Annar möguleiki er að ganga áfram meðfram Fúlukvísl og suður að göngubrú beint austan skálans. Eins og áður segir velja margir að dvelja tvær nætur í Þverbrekknamúla og nota seinni daginn til að skoða umhverfið, af nógu er að taka.

3. áfangi: Þverbrekknamúli - Hvítánes
Vegalengd 14 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Fyrst er gengið í austur, yfir göngubrúna á Fúlukvísl og síðan í suðvestur með fram ánni og henni fylgt allt suður fyrir Hrefnubúðir. Hérna er gengið um gróið land. Sunnan Baldheiðar koma víða upp kristaltærar lindir. Önnur leið úr Þverbrekknamúla suður í Hvítárnes er að ganga suður í Karlsdrátt þar sem nyrðri skriðjökullinn gengur ofan í Hvítárvatn og ganga þaðan í Hvítárnes en þá þarf að vaða Fúlukvísl undan Hrefnubúðum. Einnig má freista þess að fá bát til að sækja sig þangað og sigla í Hvítárnes. (30 gistirými, GPS 64°37.007 - 19°45.394).