Laugavegurinn - 4. leggur

Þórður Höskuldsson


Skagfjörðsskáli í Þórsmörk: GPS staðsetning 63°40,960 19°30,890
Botnaskáli: GPS staðsetning 63°45,980 19°22,450
Vegalengd 15 km.
Áætlaður göngutími 6-7 klst.
Lóðrétt lækkun 300 m.

Þar sem Syðri-Emstruárgljúfur nær langleiðina inn að Entujökli verður að taka talsverðan krók, áður en hin eiginlega ganga suður Almenninga hefst. Fyrst er gengið í austur frá skálanum. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruá. Það er alls ekki hættulaust, sérstaklega ef menn eru lofthræddir, að komast að og frá brúnni.Leið okkar liggur nú fram með Langhálsi og fram undir ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá. Þar er sjálfsagt að ganga fram á gljúfurbarminn þar sem árnar mætast. Þannig höfum við litið þau augum beggja vegna. Nú hefst hin eiginlega ganga suður Almenninga.Tvö gil verða fljótlega á vegi okkar, Slyppugil og Bjórgil.Við mælum með að ferðalangar stansi í öðru hvoru þeirra og snæði skrínukost sinn. Eftir að komið er upp úr Bjórgili liggur leiðin um land sem ber þess merki að þar hefur verið meiri skógur fyrr á öldum. Þar heita Fauskatorfur.Land undir fótum okkar breytist þegar kemur fram í Úthólma suður við Ljósá. Upp frá Ljósá heitir Kápa sem telja verður síðasta brattann á leiðinni. Þegar komið er niður af Kápu er Þröngá næst okkur. Hún skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Nú er komið í Hamraskóga og ekki nema rúmlega 30 mín. gangur þar til komið er í Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. Síðasti spölurinn er skemmtilegur, enda hlýleg tilbreyting að ganga í skóglendi frá gróðursnauðu hálendinu sem nú er að baki.