Laugavegurinn - 1. leggur

Þórður HöskuldssonLandmannalaugar: GPS staðsetning 63°59,600 19°03,660
Höskuldsskáli: GPS staðsetning 63°55,840 19°09,700,

Vegalengd: 12 km.
Lóðrétt hækkun 470 m.
Áætlaður göngutími 4-5 klst.

Þessi fyrsti hluti leiðarinnar er sá stysti í kílómetrum talið en þar sem hækkunin er nærri 500 m og þetta er fyrsti dagur göngunnar reynist þetta fólki oft dálítið strembið. Fyrri part sumars er einnig möguleiki að ganga þurfi hluta leiðarinnar í snjó sem enn eykur á erfiðið. Veður er líka ótryggt á þessum slóðum. Raunin getur því orðið sú að menn þurfi á öllu sínu að halda.

Fyrsti hluti göngunnar er yfir úfið Laugahraunið, niður af því aftur og síðan upp á hásléttuna utan í hlíðum Brennisteinsöldu. Þar er vert að stanza og líta í kringum sig. Þar blasir við okkur ægifagurt útsýni, gróður, fjöll og gil í öllum regnbogans litum litum.

Næst okkur er efsti hluti Laugahraunsins með miklum hverum. Sunnan þess er Grænagil og Bláhnúkur.

Við höldum nú áfram inn á hásléttuna. Landið umhverfis er mjög sundurskorið enda árnar fljótar að éta sig niður í mjúkt bergið. Í norðvestri blasa við Háalda og Vondugil, tröllsleg og ógnvekjandi. Í suðaustri og suðri sjást Hábarmur, Torfajökull og Kaldaklofsfjöll með Háskerðing hæstan fjalla.

Leiðin fram undan er öll á fótinn þó ekki sé hún ýkja brött. Næsti áfangastaður okkar er Stórihver, falleg gróðurvin þar sem sjálfsagt að stansa, hvíla lúin bein og fá sér bita úr nestisskrínunni. Um klukkustundar gangur er héðan og upp í Höskuldsskála við Hrafntinnusker. Hérna er líka mest hætta á þoku. Farið varlega, fylgið stikunum.