Öskjuvegur

Þórður Höskuldsson


Herðubreiðarlindir-Svartárkot í Bárðardal, Öskjuvegurinn

Inngangur
Ferðafélag Akureyrar (FFA) hefur byggt upp gönguleið með sæluhúsum þvert yfir Ódáðahraun. Gangan hefst í Herðubreiðarlindum en þangað eru um 60 km eftir jeppaslóð (F88) frá hringvegi nr. 1 við Hrossaborg á Mývatnsöræfum. Leiðin endar við bæinn Svartárkot í Bárðardal. Göngufólk skal athuga að farið er í um 1300 m. y. s. á Dyngjufjöllum. Þar getur skollið á stórhríðarveður með mjög lélegu skyggni, jafnvel yfir hásumarið. Víða er lítið drykkjarvatn að hafa á Öskjuveginum nema við sæluhúsin. Nauðsynlegt er því að bera með sér vatn til neyslu yfir daginn. Leiðin liggur víða um úfin hraun. Fólk verður því að vera á góðum gönguskóm með grófum og sterkum sóla. FFA (s. 462 2720) veitir nánari upplýsingar um Öskjuveginn og skipulagðar ferðir þar. Nauðsynlegt er að panta gistingu í sæluhúsum FFA á leiðinni með góðum fyrirvara.

Dagleið 1: Frá Herðubreiðarlindum í Bræðrafell.
Vegalengd: 17-19 km, lóðrétt hækkun: 240 m, tími: a.m.k. 5-6 klst. Frá Þorsteinsskála (30 gistirými, GPS 65°11,56'N - 16°13,39'V) er fylgt stikaðri leið yfir sandorpið helluhraun vestur að Herðubreið, drottningu þingeyskra fjalla. Þá er gengið milli hrauns og hlíða norður og vestur fyrir fjallið að bílastæði við uppgönguna við vesturrætur Herðubreiðar. Þaðan liggur leiðin vestur yfir Flötudyngju. Í kolli dyngjunnar er mjög athyglisverður gígur. Vestur af Flötudyngju hallar heim að Bræðrafelli, skála FFA (12 gistirými, GPS 65°11,31'N - 16°32,29'V) austan samnefnds fells. Þar er búnaður sem safnar vatni af þaki skálans. Einnig má sækja snjó til bræðslu í jarðföll sunnan í Kollóttudyngju eða í jarðfall sunnan Bræðrafells.

Dagleið 2: Frá Bræðrafelli í Dreka.
Vegalengd: 18-20 km, lóðrétt hækkun: 60 m, tími: a.m.k. 6-7 klst. Fylgt er stikaðri leið suður frá Bræðrafellsskálanum, yfir tvö úfin hraunhöft, upp að austurhlíð Dyngjufjalla. Gengið er milli hrauns og hlíða austan undir Stórukistu og Litlukistu og upp á hraunstraumana sem flætt hafa austur úr Öskjuopi. Þar er sveigt austur fyrir hraunið frá Öskjugosinu 1961 og sunnan þess er komið á vegarslóðann (F910) milli Herðubreiðarlinda og Drekagils. Er veginum fylgt heim að Dreka (20 gistirými, GPS 65°02,52'N - 16°35,72'V).

Dagleið 3: Frá Dreka um Öskju í Dyngjufell.
Vegalengd: 19-20 km, lóðrétt hækkun: 500 m, tími: a.m.k. 8-10 klst. Í lágskýjuðu veðri er rétt að fylgja vegarslóðanum frá Dreka upp á bílastæðið við Vikraborgir í Öskjuopi. Þar má skilja bakpokana eftir og fylgja greinilegri götu suður að Víti og Öskjuvatni. Í björtu veðri er skemmtilegt að ganga frá Dreka beint vestur yfir fjöllin norðan Drekagils og upp á austurbarm Öskju. Af barminum er mjög eftirminnilegt útsýni yfir Öskju og Öskjuvatn. Frá austurbarmi Öskju er gengið niður í Öskjuna og austan Öskjuvatns að Víti og Knebelsvörðu stutt vestan Vítis. Síðan er fylgt götunni norður að bílastæðinu við Vikraborgir. Frá bílastæðinu er gengið til norðvesturs yfir úfið hraun frá 1961 og síðan vestur milli hrauns og hlíða nyrst í Öskju að Jónsskarði. Hér byrjar stikuð leið (GPS 65°04,51'N - 16°49,07'V) NV yfir Jónsskarð. Af skarðinu er mikið útsýni, bæði suður yfir Öskju til Kverkfjalla og Vatnajökuls og einnig norður um Ódáðahraun til Bláfjalls og Sellandafjalls. Norðvestur af Jónsskarði er fylgt stikum og vörðum niður í Dyngjufjalladal að skálanum Dyngjufelli (20 gistirými, GPS 65°07,48'N - 16°55,28'V). Göngufólk gæti vel eytt aukadegi við að skoða Öskju, því að þar er mjög margt athyglisvert að sjá.

Dagleið 4: Frá Dyngjufelli í Botna við Suðurárbotna.
Vegalengd: 20-22 km, allt undan fæti, tími: a.m.k. 6-8 klst. Gönguleiðin fylgir stikaðri jeppaslóð norður úr Dyngjufjalladal. Gengið er um sandorpin hraun og sanda og brátt opnast fögur fjallasýn þar sem mest ber á Bláfjalli, Kollóttudyngju, Herðubreið og Trölladyngju. Um 13 km norðan Dyngjufells er beygt til vinstri út af jeppaslóðinni (GPS 65°13,69'N - 16°58,83'V). Eftir það er fylgt ógreinilegri slóð um helluhraun austan undir apalhraunbrún (Frambruni - Suðurárhraun) norður að Botna (GPS 65°16,18'N - 17°04,10'V), um 650 m suð-suðaustan við efstu upptökum Suðurár.

Dagleið 5: Frá Botna í Svartárkot.
Vegalengd: 15-16 km, allt niður í móti, tími: a.m.k. 5-6 klst. Fylgt er gamalli bílslóð frá Botna norð-norðvestur að Efstalæk, þar sem silfurtærar lindir bulla fram undan hrauninu. Hér er skyndilega komið á gróið land, eftir auðnir Ódáðahrauns. Leiðin liggur austan lindanna að Botnatóft og rústum Botnakofa (gamall gangnamannakofi). Þaðan er gengið niður með Suðurá að Stóruflesju þar sem gangnamannaskálar Mývetninga standa. Suð-suðaustur frá Svartárkoti beygir slóðin frá Suðurá og norður að Svartárvatni þar sem fjölmargar lindir vella undan hraunjaðrinum beint út í vatnið. Göngunni lýkur á bæjarhlaðinu í Svartárkoti.