Fyrsta skrefið á fjöll

13/04/2016

Gönguhópurinn Fyrsta skrefið fór af stað hjá FÍ í janúar. Hópurinn er hugsaður fyrir fólk sem er að koma sér upp úr sófanum til að byrja að stunda útivist og fjallgöngur eða fólk sem er að koma sér af stað aftur eftir hlé.


Leikur með höfuðljós

Um 40 manns hafa tekið þátt í verkefninu og breiddin er mikil enda rúmast 60 ára aldursmunur í hópnum, sá yngsti er 14 ára og sú elsta 74 ára. Hópurinn hefur gengið saman á stigvaxandi fjöll um hverja helgi og að auki er gengið á Úlfarsfellið á hverjum fimmtudegi.

Fyrsta-skrefid-2.jpg
Sá yngsti og sú elsta

Það sannast í Fyrsta skrefinu að eitt það skemmtilegasta við svona lokaða gönguhópa er sá þétti vinskapur og stemning sem myndast í hópnum. Fólk aðstoðar hvert annað, deilir erfiðleikastundum og fagnar sigrum saman.


Í Þingvallakirkju

Gleði og sprell er aldrei langt undan í Fyrsta skrefinu enda er óhætt að fullyrða að fararstjórarnir þau Reynir Traustason, Ólafur Sveinsson og Auður Elva Kjartansdóttir séu annálaðir sprelligosar. Hópurinn syngur alltaf sama lagið: Ég er komin heim, á hverjum tindi og gerir hnébeygjur, jógastöður og grindabotnsæfingar svo fátt eitt sé nefnt.


Nestispása og æfingar

Nú fjórum mánuðum eftir að verkefninu var hrundið af stað hefur hópurinn gengið sig upp í fantagott fjallaform og sigrað ríflega 30 fjallstoppa. Framundan er svo þyngsta fjallganga hópsins en 30. apríl verður haldið á Snæfellsjökul þar sem stefnt er að því að fullkomna sönginn á laginu Ég er komin heim.


Á Úlfarsfelli og sungið inni í Þjófagjá

Fyrsta skrefinu lýkur í byrjun maí með útskrift eftir að hópurinn gengur saman á síðasta fjallið: Öskjuhlíðina. Þegar er byrjað að teikna upp framhaldsverkefni í haust sem hlotið hefur vinnuheitið Annað skref. Það verkefni mun standa frá september til desember og verður sjónarmun erfiðara en Fyrsta skrefið, þ.e. fjöllin verða aðeins hærri og áskorunin meiri. Að óbreyttu er svo stefnt að því að fara aftur af stað með Fyrsta skrefið á næsta ári.

Meðfylgjandi myndir eru teknir af ýmsum meðlimum hópsins Fyrsta skrefið.