Hönnun á göngubrú yfir Markarfljót lokið

07/04/2016

Hönnun á útliti göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal lauk nú í mars og jafnframt eru viðeigandi útboðsgögn tilbúin fyrir brúargerðina.

Ennþá er þó unnið að fjármögnun verkefnisins. Búið er að tryggja 84 milljón króna fjárveitingu en heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður 220 milljónir og því er ekki ljóst hvenær bygging brúarinnar hefst.

Göngubrú yfir Markarfljót eykur bæði öryggi ferðamanna, býr til nýja aðkomu að Þórsmörk og opnar aðgang að skemmtilegum gönguleiðum.

Meðfylgjandi er ítarleg samantekt um brúargerðina frá Vegagerðinni og og myndir af fyrirhuguðu brúarstæði frá Studio Granda arkitektum og EFLA verkfræðistofu.

Göngubrú á Markarfljót

Bygging göngubrúar á Markarfljót við Húsadal er samstarfsverkefni Vina Þórsmerkur og Vegagerðarinnar.

Vinir Þórsmerkur voru stofnaðir af ferðaþjónustuaðilum sem hafa starfsemi í Þórsmörk árið 2011; Ferðafélagi Íslands, Ferðafélaginu Útivist, Farfuglum og Kynnisferðum, auk Rangárþings Eystra og Skógrækt ríkisins. Megin ástæða stofnunar félagsins var að stofna félagsskap sem sameinaði þessa aðila til að standa saman að ýmsum framfaramálum á svæðinu sér í lagi í tengslum við náttúruvernd.

bru3_thorsmork.jpg

Kort af fyrirhuguðu brúarstæði, merkt með bláum punkti.
Fljótshlíðin að ofanverðu og Eyjafjallajökull að neðanverðu.


Um verkefnið

Markmið með byggingu göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal er að auka öryggi og aðgengi að einum af vinsælustu ferðamannastöðum á landinu. Með aðkomu frá Emstruleið (F261) verður til ný aðkoma að Þórsmörk sem gerir fleirum kleift að njóta útivistar í Þórsmörk. Með göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal verður til örugg og fljótleg rýmingar- og flóttaleið ef eða þegar um mikla vatnavexti er að ræða í öðrum ám á svæðinu.

Með göngubrúnni opnast einnig nýjar gönguleiðir fyrir lengri og skemmri ferðir um þetta fjölbreytta landsvæði með tengingu við Tindfjallasvæðið sem og inn með Markarfljótsgljúfrum að vestanverðu, með því móti mun vaxandi ferðamennska dreifast á fleiri staði.

Í maí 2011 var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem ríkisstjórninni var falið að hefja undirbúning að smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal. Vegagerðin fékk í kjölfarið framlag á fjárlögum árið 2013 til að hefja undirbúning.

Haldin var samkeppni um hönnun brúarinnar sumarið 2014. Dómnefnd sem skipuð var fulltrúum Vina Þórsmerkur, Vegagerðarinnar ásamt arkitekt og landslagsarkitekt valdi tillögu EFLU verkfræðistofu og Studio Granda arkitekta sem bestu tillöguna. Samið var við höfunda vinningstillögu um hönnun brúarinnar til útboðs og hófst vinna við hönnun brúarinnar í lok árs 2014. Hönnun og gerð útboðsgagna lauk nú í mars 2016.

Göngubrúin er 158 m löng hengibrú í einu hafi með 2,5 m breiðu brúargólfi. Brúargólfið situr ofan á burðarköplunum og fylgir hæðarlegu þeirra í samfelldum lágboga. Brúargólfið er úr íslensku timbri, greni frá Skógrækt ríkisins. Undirstöður kapla eru úr járnbentri steypu ásamt 18-22 m löngum spenntum bergakkerum sem grautuð eru niður í móbergsklöpp.

bru1_thorsmork.jpg

Tölvugerð mynd af útliti brúarinnar og brúarstæðinu.
Horft úr norðaustri með Fljótshlíðina í baksýn.


Til að staðfesta hegðun svo léttrar hengibrúar í vindi voru gerðar vindgangaprófanir á þversniði brúarinnar hjá Force Technology í Danmörku og sá Krabbenhøft+Ingólfsson verkfræðistofa í Kaupmannahöfn um ráðgjöf vegna vindgangaprófana. Nokkrar breytingar voru gerðar á þversniði brúarinnar í kjölfar vindgangaprófana til að auka stöðugleika þversniðsins í vindi.

Brúargerðin hefur verið fjármögnuð með styrkum frá Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða, Ferðamálastofu, Skógrækt ríkisins ásamt framlögum til Vegagerðarinnar í vegáætlun. Alls voru veittar 45 milljónir kr. í verkefnið með framlagi Alþingis til Vegagerðarinnar á fjárlögum 2013. Vinir Þórsmerkur hafa fengið styrki frá framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Ferðamálastofu og Skógrækt ríkisins til verkefnisins. Fjárveitingar sem tryggðar hafa verið til verkefnisins eru alls 84 milljónir kr.

Heildarkostnaður við undirbúning og byggingu brúarinnar er áætlaður um 220 milljónir kr. og er þá ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna vegabóta inn að brúarstæðinu. Framkvæmdir hafa ekki verið fjármagnaðar að fullu ennþá og því er ekki ljóst hvenær bygging brúarinnar hefst.

GVG / 5. apríl 2016

bru2_thorsmork.jpg

Tölvugerð mynd af brúnni og brúarstæðinu.
Horft úr norðvestri með Eyjafjallajökul í baksýn.