Hundrað hæstu kynningarfundur

01/05/2017

Miðvikudagskvöldið 3. maí verður haldinn kynningarfundur fyrir Hundrað hæstu verkefnið sem er ný og spennandi áskorun fyrir allt fjallafólk og felst í því að gengið er á öll hundrað hæstu fjöll Íslands. Tindasöfnunin er staðfest, skráð og viðurkennd á sérstakri vefsíðu.

Á þessum kynningarfundi mun Þorvaldur Þórsson, sem fyrstur manna gekk á alla hæstu tinda landsins, segja frá reynslu sinni, farið verður yfir tindalistann og útskýrt hvernig fólk getur tekið þátt í þessari skemmtilegu áskorun.

Verkefninu er hleypt af stokkunum á 90 ára afmælisári Ferðafélags Íslands og FÍ býður fólki að koma með sér í 10 ára einstakt ferðalag sem lýkur með því lokið verður við að ganga á alla hæstu tinda landsins sama ár og FÍ verður hundrað ára eða árið 2027.

Allar ferðir á dagskrá FÍ þar sem gengið er á tinda sem ná inn á hundrað hæstu listann, fá nú sérstakan stimpil: Hundrað hæstu. Þátttaka í verkefninu er öllum opin og ekki er skilyrði að vera félagi í Ferðafélagi Íslands. Fólk getur að sjálfsögðu klárað söfnunina á eigin vegum og tekið í það skemmri eða lengri tíma en tímaramminn sem FÍ gefur sér er 10 ár.

Kynningarfundurinn er haldinn í sal FÍ, Mörkinni 6 og hefst stundvíslega kl. 20 á miðvikudagskvöld.

Hér má lesa allt um verkefnið.