Varasamt að tína krækling í Hvalfirði núna

19/04/2017

Búið er að aflýsa fyrirhugaðri kræklingaferð Ferðafélags barnanna þann 29. apríl þar sem mikið magn af þörungaeitri hefur mælst í kræklingnum í ár.

Ferðafélagið hefur um áraraðir staðið fyrir afar vinsælli kræklingaferð í samstarfi við Háskóla Íslands. Þessar ferðir hafa verið farnar á vordögum og leiðin legið í Hvalfjörð þar sem hefðbundið er hægt að finna mikið af góðum skelfiski á þessum árstíma. Þar hefur almenningi svo gefist kostur á að fræðast um kræklinginn, tínslu hans og nýtingu og fengið að smakka.

Hafrannsóknarstofnun vaktar þörungaeitur í bláskelinni (en svo er kræklingurinn einnig nefndur) og nú bregður svo við að stofnunin varar við neyslu á skelfiski úr Hvalfirði þar sem svonefnd DSP eiturefni eru langt yfir viðmiðunarmörkum.

Hvenær má tína krækling?

Almenna þumalputtareglan þegar farið er í kræklingafjöru er að óhætt sé að tína kræklinginn í þeim mánuðum sem hafa r í nafninu. Þetta er vegna þess að þörungablómi og eiturefni honum fylgjandi aukast yfir sumarmánuðina þegar hitastig sjávar fer hækkandi. Þörungaeitrið hefur hins vegar verið viðvarandi í Hvalfirðinum í vetur sem er afar óvenjulegt.

Hér má sjá skoða vöktunarsíðu Hafrannsóknarstofnunar á kræklingi fyrir Hvalfjörð. Rétt er þó að benda á að eiturefni hafa til dæmis ekki verið að mælast í kræklingi í Breiðarfirði síðustu mánuði. Jafnframt er allur kræklingur sem ræktaður er til sölu alltaf mældur og vottaður öruggur til neyslu áður en hann fer í búðir.

Ógleði og uppköst

Á síðu stofnunarinnar kemur fram að svo virðist sem útbreiðsla eitraðra svifþörungategunda og tíðni skaðlegra blóma af þeirra völdum hafi aukist undanfarin ár og áratugi en menn séu ekki á eitt sáttir um hvað veldur.

Það sem gerist er að skelfiskurinn nærist á eitruðum svifþörungum og eitrið safnast fyrir í skelfisknum án þess að hafa áhrif á hann sjálfan. Eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá mönnum og öðrum spendýrum sem neyta eitraðs skelfisks. DSP er skammstöfun fyrir Diarrhetic Shellfish Poisoning og áhrif DPS eitrunar eru ógleði, uppköst, þrautir í kviðarholi og niðurgangur sem fólk finnur fyrir skömmu eftir að menn hafa neytt eitraðs skelfisks. Bati næst yfirleitt innan þriggja sólarhringa.

Búrfellsganga í stað kræklingafjöru


Þar sem kræklingaferðinni hefur verið aflýst höfum við tekið þá ákvörðun að færa fyrirhugaða eldfjalla og gjótukönnunargöngu um Búrfellsgjá sem auglýst hafði verið 2. maí yfir á laugardaginn 29. apríl. Mæting er kl. 11 á bílastæðið við Vífilsstaði í Garðabæ en þaðan verður svo ekið áfram í halarófu að upphafsstað göngunnar.


Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, er með í för og útskýrir öll náttúrufyrirbrigðin sem á vegi okkar verða. Búrfellsgjáin er stórkostlegur ævintýraheimur fyrir alla krakka með ótal hellum, sprungum, gjótum og gjám.

Gjotukonnun.jpg