Vísnagerð á fjallatoppum

02/05/2016

Oraef1.jpg

Léttfeti, Fótfrár og Þrautseigur eru nöfn á fjallaverkefnum Ferðafélags Íslands sem leidd eru af fjallbræðrunum Örvari og Ævari Aðalsteinssonum.


Nöfnin eru afar lýsandi fyrir verkefnin. Í Léttfeta er gengið á eitt fjall í léttari kantinum í hverjum mánuði. Þátttakendur í Fótfrá eru með meiri göngureynslu og ganga einu sinni í mánuði á meira krefjandi fjöll og í hópnum Þrautseig eru þeir sem ganga á fjall tvisvar í mánuði, þ.e. bæði létta og erfiðara fjallið.

Oraef3.jpg
Klöngur í hlíð

Oraef7.jpg
Upp,upp, upp á fjall

Verkefnin hófust í byrjun árs og gengið er í hverjum mánuði ársins á fjöll eins og Baulu, Hafnarfjall, Jarlhettur og Snæfellsjökul.


Margir þátttakendur í þessum verkefnum er fólk sem kannski hittist ekki eins oft og það myndi vilja og ákveður því að taka þátt og nota fjallaverkefnin beinlínis til að hittast. Þá verða fjallgöngurnar að skemmtilegum og uppbyggilegum samverustundum sem næra bæði líkama og sál.

Þannig eru dæmi um systkini sem ganga saman, afa með barnabarnið sitt, móður með dreng á fermingaaldri, hjón, vini og vinkonur. Fólk kemur jafnvel ár eftir ár í þessi verkefni, líka þrautvant göngufólk sem finnst kostur að láta aðra sjá um skipulagið og öryggismálin.

Oraef2.jpg
Hvað stendur þarna?

Oraef4.jpg
Glaðir fjallafarar

Fjallbræðurnir og tvíburarnir Örvar og Ævar (stundum kallaðir ÖrÆvar eða stóru bræðurnir sökum þess hversu langir þeir eru í annan endann) eru miklir músíkantar og bralla mikið í sínum ferðum. Meðal annars er Ævar duglegur að hnoða saman vísum á meðan verið er að brölta á fjöll.

Oraef6.jpg
Í röð

Oraef5.jpg
Á Kóngsfelli

Ævar segir að í upphafi ferðar tali fararstjórarar gjarnan um hve víðsýnt sé af fjallstindinum og því sé nauðsynlegt að þræla sér þangað upp en niðurstaðan sé hins vegar oft svona:

Uppá tindinn áfram brýst
með ógnarþungan poka.
Útsýn mikil er þar víst
ef ekki væri þoka

Borgfirska fjallið Baula hefur reynst mörgum fjallagarpinum erfitt og fyrir nokkrum vikum þegar bræðurnir gengu með hóp þar upp var lítið skyggni, slydda og kólnaði mikið þegar ofar kom í fjallið. Við svoleiðis aðstæður er oft lítið að sjá og ágætt að bregða bara á það ráð að hræra í vísur. Hér fylgja tvær frá Ævari:

Hér uppi get ég ekki bent
á aula eða aulu.
Það er ekki heiglum hent
að hafa sig á Baulu.

Við flæktumst á Baulu, við fórum í býtið
fallegur hópur – en eitt fannst mér skrýtið.
Víst er ég bjáni, en varla ég skil
vorið er komið með frosti og byl!