Ferð: 10 ára afmælisvika

Suðvesturland
10 ára afmælisvika
Ferðafélag barnanna fer út að leika
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing


Ferðafélag barnanna fagnar 10 ára afmæli í júní og við ætlum að halda upp á það með skemmtilegu krakkafjöri í heila viku!

Við bjóðum alla vini okkar hjartanlega velkomna, duglegu krakkana og fullorðna fólkið þeirra og viljum líka kynnast fleiri hressum og kátum börnum.

Í afmælisvikunni ætlum við að vera svolítið hugrökk, prófa sjósund, hjóla um kræklótta stíga, ganga í kvöldsólinni og skella okkur í gamla og nýja útileiki. Umfram allt ætlum við að hafa gaman saman úti.

Allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta!


Dagskrá afmælisvikunnar

10. júní, mánudagur: Út að leika í lundi
Brottför: Kl. 14 frá bílastæðinu við Rauðhóla þaðan sem við keyrum í halarófu inn í Heiðmörk.
Þar í fallegum lundi förum við í alls konar skemmtilega, gamla og nýja útileiki. Tilvalið fyrir litla og stóra krakka og líka fyrir fullorðnu börnin. Takið með heitt á brúsa og uppáhaldsnesti barnanna. 2 klst.


11. júní, þriðjudagur: Hressandi hjólafjör

Brottför: Kl. 18 frá gömlu rafstöðinni við Elliðaár.
Hittumst með hjól, hjálma og nesti í bakpoka. Hjólum á skemmtilegum skógarstígum á þægilegum hraða. Borðum nesti í fallegri laut. 1-2 klst.

12. júní, miðvikudagur: Sullumbull í sjónum
Brottför: Kl. 18 frá Nauthólsvík.
Við ætlum að vera hugrökk og skella okkur í sjósund. Hressandi og ískaldur leiðangur en við fáum líka hita í kroppinn í heita pottinum og getum spjallað saman um ýmis ævintýri, gömul og ný með Ferðafélagi barnanna. Allir taka með sér sundföt og handklæði. 1-2 klst.


13. júní, fimmtudagur: Kvöldsólarganga á Helgafell
Brottför: Kl. 19 frá bílastæði við enda Kaldárselsvegar.
Afmælisfjallganga! Það elska öll börn að vera úti með fjölskyldunni á fallegum sumarkvöldum. Við ætlum að ganga á Helgafell í Hafnarfirði og njóta kvöldsólarinnar sem lætur örugglega sjá sig. Skemmtileg ganga sem um leið er nokkur áskorun fyrir alla duglega krakka. Stórkostlegt útsýni yfir borgina á toppnum og þar syngjum við afmælissönginn til heiðurs Ferðafélagi barnanna og skrifum í gestabók. Takið með heitt á brúsa og kvöldnesti. 2-3 klst.


Pakkað fyrir dagsferð

Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring.  Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir