Ferð: Ævintýraheimur Strandafjalla

Strandir
Ævintýraheimur Strandafjalla
Fjallgöngurl í fámennasta hreppi landsins
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Árneshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag Íslands. Þátttakendur kynnast samfélaginu í hreppnum og kostum þess að dvelja á slóðum sem nútíminn hefur að mestu látið ósnertar.

Fegurðin á þessum slóðum, þar sem vegurinn endar, er stórkostleg og náttúran einstök, hvort sem er í þoku eða glampandi sólskini.

Þátttakendur koma á eigin vegum í skála FÍ, Valgeirsstaði í Norðurfirði. Þar er svo dvalið og gengið á fáfarin fjöll þar sem göngufólki opnast sannkallaður ævintýraheimur.

Reglulegar heimsóknir í Krossneslaug, sundlaugina í fjöruborðinu.

Fararstjórn

Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson

Innifalið
Gisting, fiskisúpuveisla, heimsókn í Kört og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., föstud. Þegar fólk hefur komið sér fyrir og borðað er gengið á Reykjaneshyrnu.

2.d. Gengið á fjallið Glissu, fáfarið en frábært útsýnisfjall. Hækkun 450 m. Dansað á toppnum. Heimsókn í hið rómaða byggðasafn Kört og sund í landsins skemmtilegustu sundlaug í Krossnesi. Grill (ekki innifalið) og kvöldvaka á Valgeirsstöðum.

3.d. Ekið í Kjörvog og gengið á Örkina, 635 m, sem er útvörður Reykjarfjarðar syðri og kallast á við Reykjaneshyrnu. Stórbrotið útsýni. 8 km. Hækkun 600 m. Á bakaleiðinni verður ekið að Kistuvogi þar sem þrír galdramenn voru brenndir á báli á 17. öld. Sund í Krossneslaug og fiskisúpa á Kaffi Norðurfirði.

4.d. Pakkað saman og haldið í Gjögur. Náttúrulaugin skoðuð og gengið um þennan forna byggðakjarna og verstöð undir leiðsögn heimamannsins Hilmars Friðriks Thorarensens. Frá Gjögri verður haldið í Djúpuvík þar sem ferðinni lýkur.

Rólegheitin allsráðandi

Árneshreppur á Ströndum er eitt minnsta sveitarfélag á landinu. Hreppurinn býr að einhverjum fegurstu fjöllum á landinu. Þar er örsamfélag sem nútíminn hefur að mestu látið í friði. Heimamenn lifa að mestu á því sem landið og sjórinn gefa. En gríðarleg mannfækkun ógnar byggðinni og þar sem hundruð manna bjuggu áður eru nú aðeins örfáir tugir allt árið. Í heimsókn á Strandir með Ferðafélagi Íslands mun Reynir Traustason skálavörður Ferðafélags Íslands í Norðurfirði, leiða fólk um fjöll og flatlendi og upplýsa það um þennan ævintýraheim við ysta haf.

Spjallað verður á bekknum við Kaupfélagið þar sem heimamenn hafa borið saman bækur sínar áratugum saman. Þá verður komið við á þeim rómaða veitingastað Kaffi Norðurfirði, þar sem Sara og Lovísa töfra fram rétti sem slegið hafa í gegn hjá þeim sem njóta. Staðurinn er einkar hátt skrifaður á Trip Advisor. Fjöllin Glissa og Örkin verða lögð undir fót. Þá verður farið í þá frægu Krossneslaug eins oft og mögulegt er. Gestir koma á aftökustaðnum í Kistuvogi þar sem seinustu aftökur á landinu áttu sér stað.

Kvöldvaka verður haldin þar sem sagðar verða sögur af draugum tveggja kynslóða auk þess að syngja og njóta lífsins. Á seinasta degi heimsóknarinnar verður kíkt við í náttúrulauginni á Gjögri. Þetta er einkalaug í fjöruborðinu sem aðeins útvaldir fá að njóta.

Í Árneshreppi eru rólegheitin allsráðandi. Þar eru ferðamenn tiltölulega fáir og ekki sá erill sem sumstaðar er á landinu. Það fer vel um gesti á Valgeirsstöðum í húsi Ferðafélagsins sem er rúmlega aldargamalt.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur