Ferð: Grænihryggur og Hattver

Hálendið
Grænihryggur og Hattver
Litadýrð að Fjallabaki
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Fyrir botni Jökulgils í Friðlandi að Fjallabaki er ósnortinn ævintýraheimur og sannkölluð öræfakyrrð. 

Gist er í tjöldum í Hattveri innan um litadýrðina, jökulárnar og jarðhitann. Svæðið er afar fáfarið og hefur verið hulið flestum ferðamönnum. Vaða þarf jökulár og ganga eftir bröttum hryggjum þar sem lofthræðsla getur gert vart við sig.

Bera þarf allan farangur á bakinu fyrsta og síðasta daginn. Krefjandi en heillandi öræfaferð. 

Áhugasömum er bent á árbók FÍ árið 2010 eftir Ólaf Örn Haraldsson sem fjallar ítarlega um svæðið.

Brottför/Mæting
Kl. 12 frá Landmannalaugum
Fararstjórn

Örvar Þór Ólafsson.  

Innifalið
Fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d. föstud. Þátttakendur koma á eigin vegum í Landmannalaugar en þaðan er svo gengið um Brennisteinsöldu og upp að Stórahver. Stefnan tekin ofan í Jökulgil um fjárgötur á barmi hrikalegra og litríkra Hamragilja. Tjaldað á eyrinni í Hattveri, utan gróðurs. 6-7 klst. 

2.d. Gengið að norðurjaðri Torfajökuls og haldið niður með Sveinsgili. Náttúruundur Grænahryggjar skoðað. Vaðið yfir Jökulgilskvísl við furðumyndir Þrengsla og aftur heim í tjaldstað. 6-7 klst. 

3.d. Tjöldin tekin upp og gengið upp örmjóan Uppgönguhrygg á Skalla, besta útsýnisfjall að Fjallabaki. Gengið eftir Laugabarmi og komið í Landmannalaugar síðdegis. 5-6 klst.

Fegurðin að Fjallabaki

Skipulagðar gönguferðir um dýrðina í friðlandinu að Fjallabaki er eftirsóttar og njóta mikilla vinsælda. Það var Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands, sem varð fyrstur til að skipuleggja ferðir um þessar slóðir. Ólafur skrifaði árbók Ferðafélagsins árið 2010 um friðlandið að Fjallabaki. Eftir það fór hann með hópa í skipulagðar ferðir. Aðstoðarfararstjóri var sonur hans, Örvar Þór Ólafsson. Nú hefur Örvar tekið við af föður sínum. 

Ferðin tekur þrjá daga og er gengið með allt á bakinu en gist er í Hattveri í Jökulgili. 

Enginn er ósnortinn eftir ferðalagið að Fjallabaki. Þetta er eitt merkasta háhitasvæði Íslands. Svæðið er í verndarflokki og unnið er að því að koma því á heimsminjaskrá. Þar er að finna einstaka litadýrð og landslag sem er í senn stórskorið og stórkostlegt. 

Svæðið er ósnortið. Hjarta þess er Jökulgil og Hattver þar sem fáir eiga leið um. Ferðamaðurinn þræðir sig eftir hryggjum og giljum undir öruggri leiðsögn og upplifir náttúruperlur á borð við Græna hrygg, Þrengslin, Hamragilin bæði og Skalla. Hughrifin eru mikil og margur grípur andann á lofti við fegurðina. 

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

 • Bakpoki, ekki of stór
 • Svefnpoki, léttur og hlýr
 • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
 • Tjald og tjalddýna
 • Göngustafir
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Höfuðljós
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Broddar, ef þurfa þykir
 • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

 • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
 • Verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði / þvottapoki
 • Sólvarnarkrem og varasalvi
 • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

 • Prímus, eldsneyti og pottur
 • Eldspýtur
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

 • Góðir gönguskór
 • Vaðskór / skálaskór
 • Tvö pör mjúkir göngusokkar
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Nærbuxur til skiptana
 • Nærföt, ull eða flís
 • Flís- eða ullarpeysa
 • Millilag úr ull eða flís
 • Göngubuxur
 • Stuttbuxur
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar

Matur

 • Frostþurrkaður matur
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Haframjöl
 • Smurt brauð og flatkökur
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar