Ferð: Móskarðshnúkar

Suðvesturland
Móskarðshnúkar
Lokahátíð Fjallagarpaverkefnis fjölskyldunnar
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Lokahátíð og sjötta og síðasta fjallgangan af sex í Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar. Þeir garpar sem ganga á öll fjöllin fá viðurkenningarskjal og titilinn Fjallagarpur Ferðafélags barnanna. Það má líka ganga bara á eitt fjall!

Síðasta fjallið í verkefninu eru hinir undurfögru Móskarðshnúkar. Þetta er alvöru fjallganga fyrir duglega krakka í stórbrotnu umhverfi. 

Mikilvægt er að vera í góðum skóm og með gott nesti. 

Að lokinni göngu afhendum við Fjallagörpum viðurkenningarskjöl fyrir árangurinn og grillum pylsur að hefðbundnum íslenskum sið! 4-5 klst.

Fyrir félagsmenn FÍ og fjölskyldur þeirra. Ekkert að panta, bara mæta!

Dagskrá verkefnisins

Smellið á nöfn fjallanna fyrir nánari upplýsingar um hverja göngu.

Selfjall. 9. maí.

Keilir. 26. maí.

Skálafell. 6. júní.

Ásfjall. 15. ágúst.

Vífilsfell. 29. ágúst. 

Móskarðshnúkar. 15. september.   

Leiðarlýsing

Brottför á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 kl. 12:30 en líka hægt að hitta okkur um kl. 13:00 við upphafsstað göngu á bílastæði við Móskarðshnúka. Þá er beygt frá Mosfellsbæ á Þingvallaveg og keyrt nokkuð áleiðis, fram hjá Gljúfrateini og ekið áleiðis þar til komið er að skilti sem vísar á Hrafnhóla til vinstri handar. Þar er beygt inn og keyrt áleiðis eftir malarvegi og tekur svo malbikaður vegur við og skömmu síðar er beygt til hægri við skilti sem vísar á Móskarðshnúka. Keyrt eftir veginum að bílastæði við upphafstað gönguleiðar á fjallið.

Pakkað fyrir dagsferð

Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring.  Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir