Ferð: Veiði á Vatnaleiðinni

Vesturland
Veiði á Vatnaleiðinni
Ferðafélag barnanna
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Ferðafélag barnanna heldur í vaska göngu og veiðiferð. 

Þetta er ný ferð þar sem gengin er gullfalleg leið frá Hreðavatni að Langavatni. 

Við Langavatn er dvalið í skála í tvær nætur en dagarnir eru nýttir í veiði, kajaksiglingar og göngur ásamt leikjum og kvöldvökum. 

Brottför/Mæting
Kl. 8 frá FÍ
Fararstjórn

Jón Einarsson og Þóra Þráinsdóttir.
 

Innifalið
Gisting, trúss, veiði og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., föstud. Ekið að Hreðavatni, þaðan sem gengið er um skógivaxna ása og fell að skálanum Torfhvalastöðum við Langavatn þar sem gist er í tvær nætur. 15 km. Farangur trússaður að skálanum.

2.d. Veiðistangir teknar fram og kajak settur á flot. Veitt í Langavatni. Þeir sem eiga veiðistöng komi með hana, annars eru fararstjórar með nokkrar til láns sem og björgunarvesti. Gengið á Staðarhnúk.

3.d. Gengið til baka að Hreðavatni og dáðst að fegurð Borgarfjarðar. Ekið í bæinn með bros á vör.

Hægt er að skipta greiðslum með kortaláni frá Valitor. Vinsamlega hafið samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533.

Veðursæld á Vatnaleið

Vatnaleiðin upp frá Mýrum á Vesturlandi þykir vera falleg og fjölbreytt um náttúru sem er nánast ósnortin. Þar er engin mannvirki að sjá, hvorki girðingar né staura vegna rafmagns eða síma. 

Vatnaleiðin er afskekkt en samt nálægt þéttbýli. Svæðið er afréttur en nánast ósnert frá landnámi. Þar eru engir vegaslóðar, símastaurar, girðingar eða önnur mannvirki. Flestir vita ekkert af þessu svæði og jafnvel heimamenn, aðrir en bændur, halda að ekkert sé að sjá þar. En reyndin er önnur. Stutt er á milli stórra vatna og mikil gróðursæld. Þá er veðursæld mikil. 

Göngumaðurinn fær að njóta þess munaðar að vera á slóðum þar sem ekkert truflar náttúruupplifun hans. Fuglasöngur og árniður í bland við önnur náttúruhljóð gera ferðina ógleymanlega.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur