Ferð: Víkingar að Valgeirsstöðum 

Strandir
Víkingar að Valgeirsstöðum 
Ferðafélag Barnanna
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Ferðafélag barnanna heldur á slóðir víkinga á ströndum þar sem ævintýrin bíða.Við skoðum gróðurinn, föndrum, tendrum bál og bökum brauð í fjörunni. Við förum einnig í léttar gönguferðir, skoðum gamla síldarverksmiðju og tökum nokkur sundtök í hinni ævintýralegu Krossneslaug þar sem líka er hægt að sitja og horfa á seli og ísjaka ef við erum heppin. Kannski lendum við í bardaga við víkinga eða rekumst á ófrýnilega fjallbúa. Á kvöldin er farið yfir viðburði dagsins, rýnt í brandarabækur og listrænir hæfileikar þátttakenda dregnir fram með söng- og leiklist. Ein aðalreglan er að njóta og skemmta sér.

Mæting: Kl. 15 sunnudaginn 11. júlí á einkabílum að Valgeirsstöðum í Norðurfirði.

 

Fararstjórn

Steinunn Leifsdóttir og Jóhann Aron Traustason.

 

 

 

Innifalið
Innifalið: Gisting, grill og fararstjórn.

Leiðarlýsing

1.d., sunnud. Komið að Valgeirsstöðum um kl. 15. Allir koma sér fyrir og heilsa nýjum ferðafélögum. Sundferð í Krossneslaug og kósý um kvöldið

2.d. Gönguferð á Krossnesfjall þar sem útsýnið er stórkostlegt, sundferð í Krossneslaug, matur og kvöldvaka.

3.d. Bíltúr í Ingólfsfjörð þar sem við skoðum gamla og draugalega síldarverksmiðju. Í fjörunni förum við í leiki og keppum í þrautum um vegleg verðlaun. Seinni partinn tendrum við bál og bökum brauð í fjörunni við Valgeirsstaði. Deginum líkur með grilli og kvöldvöku

4.d. Eftir frágang og brottför verður ekið að Reykjaneshyrnu og gengið þar upp. Svo allir komi hreinir heim stoppum við við sundlaugina í Bjarnafirði. Kveðjustund.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur