Ferð: Árbókarferð um Ísafjörð og nágrenni

Vestfirðir
Árbókarferð um Ísafjörð og nágrenni
Eldri og heldri borgara ferð
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Ísafjörður var um tíma annar fjölmennasti kaupstaður landsins. Þar reis mikið verslunarveldi á síðari hluta 18. aldar og þar hafa athafnamenn, listamenn og stjórnskörungar alið aldur og haft áhrif á þjóðlífið og sitt nánasta samfélag.

Þetta er mikil söguferð þar sem ferðast er um með höfundi árbókar FÍ 2017 sem fjallar um Ísafjarðardjúp.

Svefnpokagisting í Önundarfirði.

Fararstjórn

Sigurður Kristjánsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Innifalið
Rútuferð, gisting í 3 nætur, sigling í Vigur, kvöldmatur síðasta daginn og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., fimmtud. Ekið frá Reykjavík til Ísafjarðar. Um kvöldið er söguganga um Ísafjörð.

2.d. Siglt í Vigur. Gengið um eyna og fræðst um fuglalíf og nytjar fyrri tíma, búskaparhætti, menningu og mannlíf við Djúp. Léttar veitingar í eynni (ekki innifalið) áður en siglt er til baka.

3.d. Gengið um aflagðan akveg um hina hrikalegu Óshlíð til Bolungarvíkur og endað í Ósvör sem er sögusvið fyrsta hluta þríleiksins eftir Jón Kalmann. Sund í Bolungarvík áður en ekið er til baka. Sameiginlegur kvöldmatur á Ísafirði.

4.d. Ekið til Reykjavíkur.

Þægileg og fræðandi árbókarferð

Þeir eru margir sem hafa mætt í árbókarferðir Ferðafélags Íslands í gegnum tíðina. Í ár eru ferðirnar tvær. Sú fyrri er útfærð fyrir eldri borgara og þá sem ekki vilja leggja í erfiðar göngur.

Árbókin að þessu sinni er tileinkuð Ísafjarðardjúpi, frá Skálavík að Vébjarnarnúpi. Boðið upp á rútuferð frá Reykjavík og vestur á firði undir fararstjórn Sigurðar Kristjánssonar og leiðsögn dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, fyrrverandi alþingismaður og skólameistrari, er höfundar árbókarinnar að þessu sinni.

Ólína er Vestfirðingur, hafsjór af fróðleik um svæðið. Hennar svið eru íslenskar bókmenntir og þjóðfræði. Víst er að engum mun leiðast að hlýða á höfundinn segja frá náttúru og mannlífi við Ísafjarðardjúp. Löng saga byggðar er inn til dala og við hvern fjörð og hverja vík.

Ferðalangar leggja leið sína gangandi um gamla Óshlíðarveginn þar sem skriður og snjóflóð urðu fólki að aldurtila. Sá hættulegi vegur var aflagður þegar Bolungarvíkurgöng voru tekin í gagnið. Siglt verður út í eyjuna Vigur og fræðst um fuglalíf, náttúru og sögu byggðar. Söguganga verður um Ísafjarðarbæ sem á árum áður var þriðji stærsti bær landsins.

Eftir fjögurra daga ferð munu ferðalangar halda heim, margs vísari um Ísafjarðardjúp og sögu mannlífs þar.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur