FÍ Vorkvöld í Reykjavík

FÍ Vorkvöld í Reykjavík

Vorkvöld í Reykjavík samanstendur af átta stuttum kvöldgöngum í Reykjavík ýmist á götum borgarinnar eða í náttúruvinjum innan borgarlandsins.
Þátttakendur hittast á fyrirfram ákveðnum stað á eigin bílum og ganga saman í 1.5 til 2 klst en göngu lýkur ávallt á sama stað og hún hófst. Göngur hefjast kl. 20.00.

Athugið: Ekki er hægt að kaupa stakar göngur.

Fararstjórar og umsjónarmenn eru Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Verð: 23.900 með árgjaldi og 16.000 fyrir félagsmenn.

Dagskrá FÍ Vorkvöld í Reykjavík

12. maí - Elliðaárdalur

Gengið um Elliðaárdal og hugað að nýjum og gömlum örnefnum, sögu og minjum. Náttúra og saga koma saman í þessu vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Sérstaklega munum við gefa gaum þeim áformum um uppbyggingu sem nú eru uppi í jaðri dalsins.

14. maí - Öskjuhlíð

Fjallið í borgarmiðjunni er hluti af sögu Reykjavíkur. Hér fauk þjóðhátíðin út í veður og vind. Hér var endastöð einu járnbrautar á Íslandi og á stríðsárunum var Öskjuhlíðin víghreiður og brjóstvörn landvarna. Skoðum þetta allt og meira til.

19. maí - Fjós í Reykjavík

Langt fram á 20 öld var rekinn búskapur á ýmsum stöðum í borgarlandinu. Kýr voru mjólkaðar við fínustu götur bæjarins og haldið til beitar í núverandi almenningsgörðum. Við göngum um söguslóðir við Miklatún og Laufásveg og tölum um sveit í borg.

26. maí - Í fótspor miðlanna

Á fyrrihluta 20. aldar nam andatrú eða spíritismi land á Íslandi og náði traustri fótfestu meðal broddborgara og alþýðu manna. Í miðbæ Reykjavíkur og nágrenni eru ýmsir staðir sem tengjast þessari litríku sögu og við ætlum að staldra við á nokkrum þeirra.

28. maí - Á skáldaslóð í Vogunum

Borgin nam land í Vogunum eftir stríðið og þar ólust upp barnmargar kynslóðir þeirra sem höfðu yfirgefið sveitirnar. Vogarnir urðu sandkassi og leikvöllur nokkurra áhrifamikilla listamanna sem hafa markað okkar samtíð með verkum sínum. Göngum um Vogana og hlustum eftir vængjaslætti í þakrennum.

2. júní - Í fótspor Megasar

Magnús Þór Jónsson eða Megas er ótvírætt einn af merkustu listamönnum okkar tíma. Reykjavík er heimkynni hans frá æsku og borgin og líf fólks í borginni ríkur þáttur í kvæðum hans. Við fetum slóðir skáldsins frá Hlemmi, gegnum Norðurmýri þar sem hann ólst upp, þaðan upp á Skólavörðuholt og niður á Laugaveg aftur upp á Hlemm. Við reynum að finna sögustaði úr kvæðum Megasar á leið okkar og valin kvæði verða lesin á torgum.

4. júní - Gengið um Grafarvog

Grafarvogur er eitt helsta úthverfi Reykjavíkur. Þar leynist líka fjölbreytt saga og áhugaverð. Við ætlum að ganga um voginn kyrra og fræðast um sögu hans og fortíð, kynnast örnefnum og sérstæðu fólki sem byggði þennan stað.

8. júní - Loftböð og teygjur í Fossvogi

Í Fossvogi leynast ýmsir áhugaverðir staðir. Þar eru merk jarðlög sem áhugavert er að skoða. Þar stunduðu menn sjóböð frá upphafi 20. aldar og gera enn í dag. Göngum um Fossvog og fræðumst um heilsugildi loftbaða, sjósund fyrr og nú og prófum að gera nokkrar Mullersæfingar.

Loading...