Fjalla- og hreyfihópar

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjallaverkefnum og hreyfihópum sem ganga út á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap.

Meginmarkmið þessara verkefna er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum.

Hér að neðan er stutt yfirlit yfir þessi verkefni en allar nánari upplýsingar má nálgast með því að smella á heiti hvers verkefnis eða beint á viðeigandi undirsíðu hér til hliðar.

Gönguhópur FÍ

FÍ Alla Leið og Haustgöngur Alla leið

Fjallaverkefnið Alla leið er æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori á hæsta fjall Íslands, sjálfan Hvannadalshnúk. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum sem stigmagnast að erfiðleikastigi, vikulegum þrekæfingum og alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur. Eftir sumarfrí tekur við verkefnið Haustgöngur Alla leið sem stendur til áramóta.

Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið

Fyrsta skrefið byggist á reglubundnum göngum á þægileg fjöll. Gengið er á mismunandi fjöll einu sinni í viku. Farið er á hraða sem hentar hópnum og þrek fólks er smám saman byggt upp. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Næsta skrefið, frá september til áramóta.

Umsjónarmaður er Reynir Traustason.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum.

Umsjónarmenn eru Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til á erfið og krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Göngurnar verða í hraðari kantinum og nokkuð krefjandi.

Umsjónarmenn eru Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan, þ.e. bæði FÍ Léttfeta og FÍ Fótfrá. Þá er gengið á að minnsta kosti 24 bæði létt og krefjandi fjöll, í 20 dagsferðum og tveimur helgarferðum yfir árið. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi.

Umsjónarmenn eru Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Útideildin

Þetta er verkefni fyrir útivistarfólk í meðalgóðu gönguformi sem vill hittast reglulega og stunda skemmtilega og fjölbreytta útivist á besta tíma ársins. Verkefnið hefst í apríl og endar í október. Megináhersla er á hefðbundnar göngur og ferðir um áhugaverðar ferðaslóðir og fjöll. Til að auka fjölbreytni er einnig farið í léttar ferðir á ferða/fjallahjólum.

Umsjónarmenn eru Örvar Aðalsteinsson og Þóra Björk Hjartardóttir.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2019.

FÍ Landvættir

Þrjár æfingaleiðir standa til boða innan FÍ Landvætta og allar standa í rúma 9 mánuði eða frá október til júlíloka árið eftir. FÍ Landvættir stefna að því að ljúka lengstu vegalengd í öllum fjórum þrautum Landvættanna, FÍ Landvættir ½ taka helmingi styttri vegalengdir í sömu þrautum og FÍ Ungvættir taka stystu vegalengdirnar. Þetta eru æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Fullbókað er í FÍ Landvætti og FÍ Landvætti ½ en tekið er á móti skráningum á biðlista.
Enn eru laus pláss í FÍ Ungvætti. Sjá hér.

FÍ Landkönnuðir

FÍ Landkönnuðir er lokaður hópur ævintýrafólks sem tekst á við margs konar áskoranir úti í náttúrunni. Meginmarkmið hópsins er að fylla lífið af ævintýrum, vera á iði og hafa gaman. Lögð er áhersla á fjölbreytt útiævintýri og góða fræðslu. Hópurinn hittist að meðaltali einu sinni í mánuði og stundar jöfnum höndum fjallahjólreiðar, vatnasund, fjallgöngur, kajakróður, náttúruhlaup og fjallaskíði. Meðal verkefna eru vetrarferðalög á gönguskíðum og Vesturgötu-þríþrautin.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Fullbókað er í FÍ Landkönnuði en tekið er á móti skráningum á biðlista. Sjá hér.

FÍ Gengið á góða spá

Opið útivistarverkefni sem snýst um þá meginhugmynd að stunda útivist og fjallgöngur í góðu veðri. Ferðirnar eru fjölbreyttar að umfangi, bæði fjallgöngur og annars konar útivist. Meðal nýbreytni árið 2019 eru gönguferðirnar Göngur og góðgæti, þar sem markmiðið er að njóta útivistar ásamt því að læra að útbúa girnilegar úti-máltíðir. Hverri ferð lýkur með því að þátttakendur elda og borða saman úti undir berum himni. Allar ferðir í verkefninu Gengið á góða spá eru farnar þangað sem mestar líkur eru á góðu gönguveðri og fjallaútsýni og auglýstar með stuttum fyrirvara eða 4-5 dögum fyrir hverja ferð. Best er að fylgjast með fésbókarhópnum FÍ Gengið á góða spá. Ferðirnar standa öllum opnar en nauðsynlegt er að skrá sig og greiða fyrir hverja ferð.

Umsjónarmaður er Ragnar Antoniussen.

Hundrað hæstu

Í Hundrað hæstu verkefninu gengur fólk á öll hundrað hæstu fjöll Íslands og fær tindasöfnunina staðfesta, skráða og viðurkennda. Þetta er ekki lokaður hópur heldur einstaklingsverkefni hvers og eins. Þátttakan er ókeypis og öllum opin og ekki er skilyrði að vera félagi í Ferðafélagi Íslands. Hins vegar býður Ferðafélagið þeim sem það kjósa að koma með sér í 10 ára einstakt ferðalag sem lýkur með því að þeir sem taka þátt, klára hundrað hæstu tinda Íslands sama ár og FÍ verður hundrað ára eða árið 2027. Allar ferðir á dagskrá FÍ þar sem gengið er á tinda sem ná inn á hundrað hæstu listann, fá nú sérstakan stimpil: Hundrað hæstu. Fólk getur að sjálfsögðu klárað söfnunina á eigin vegum og tekið í það skemmri eða lengri tíma en tímaramminn sem FÍ gefur sér er 10 ár.