Ferð: Fjallagarpar á Keili

Suðvesturland
Fjallagarpar á Keili
Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar 2 af 6
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Nú er komið að annarri göngu Fjallagarpaverkefnis fjölskyldunnar og að þessu sinni verður haldið á fallega Keili.
Ganga á Keili er nokkur áskorun en skemmtileg en fjallið er þó sýnu erfiðara uppgöngu en Selfjall. Duglegir krakkar frá um 6 ára aldri ættu þó vel að geta farið leiðina með góðri aðstoð sinna forráðamanna.

Gangan hefst við Höskuldarvell og eru gengnir tæpir 3 km áður en komið er að fjallinu. Gengið er yfir nokkuð úfið hraun en síðan taka við melar þar til að fjallinu er komið sem sem rís frekar bratt og ákveðið upp af landinu. Gengið er upp fjallið eftir greinilegum slóða en svo farið yfir skriðu og sendna brekkur áður en komið er á toppinn. Þar er gestabók sem allir fjallagarpar skrifa nafnið sitt í. Gott er að hafa í huga að vegurinn að gönguleiðinni að Keili getur verið grófur og því nauðsynlegt að keyra varlega.

Mikilvægt að vera í góðum grófbotna skóm og allir muna að sjálfsögðu eftir nóg af góðu nesti og vatni til að svala þorstanum. Ferðin með akstri getur tekið allt að 4-5 klst.

Fjallagarpaverkefnið er fyrir félagsmenn FÍ og fjölskyldur þeirra. Allir krakkar hljóta viðurkenninguna Fjallagarpur Ferðafélags barnanna - líka þau sem komast ekki í allar göngurnar! 


Ekkert að panta, bara mæta! Ef þið eruð ekki félagsmenn er hægt að gerast félagsmaður  með því að smella HÉR 


Dagskrá verkefnisins

Smellið á nöfn fjallanna fyrir nánari upplýsingar um hverja göngu.

 1. Selfjall. 9. maí.
 2. Keilir. 26. maí.
 3. Skálafell. 6. júní.
 4. Ásfjall. 15. ágúst.
 5. Vífilsfell. 29. ágúst.
 6. Móskarðshnúkar. 15. september.

   Leiðarlýsing

   Brottför á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6 kl. 12:30 en líka hægt að hitta okkur um kl. 13:15 við upphafsstað göngu á Höskuldarvöllum. Þá er keyrt vestur Reykjanesbraut og beygt út af við afleggjara að Vatnsleysuströnd. Þar er keyrt um hringtorg og haldið suður en leiðin að Keili er vel merkt. Fljótlega tekur við nokkuð grófur malarvegur sem er öllum bílum fær en aka verður þó varlega. Eftir um 8 km akstur á malarvegi er komið að Höskuldarvöllum þaðan sem gangan hefst.

   Pakkað fyrir dagsferð

   Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring.  Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

   Göngufatnaður

   • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
   • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
   • Peysa úr ull eða flís
   • Göngubuxur / stuttbuxur

   Í dagpokanum

   • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
   • Áttaviti, landakort og GPS tæki
   • Smurt nesti fyrir daginn
   • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
   • Vatnsbrúsi
   • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
   • Göngustafir
   • Myndavél og kíkir
   • Sólgleraugu / skíðagleraugu
   • Sólarvörn og varasalvi
   • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
   • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
   • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
   • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
   • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir