Ferð: Fossar og himinblá vötn

Strandir
Fossar og himinblá vötn
Gullfossar Stranda skoðaðir
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Fagurt mannlíf og afar sérstæð náttúra eru einkenni Árneshrepps á Ströndum sem kúrir við rætur Drangajökuls.

Áformaðar eru framkvæmdir við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Virkjunin er umdeild og samfélagið klofið um málið.

Verði af virkjuninni verður hluta af hálendinu sökkt undir uppistöðulón. Þá munu fossar í Eyvindarfjarðará, Hvalá og Rjúkanda þorna upp að hluta.

Leiðin liggur um slóðir þar sem fossar og himinblá vötn eru einkenni náttúru  á svæðinu sem kann að taka breytingum.

Ósnortin og óbyggð víðerni eru á meðal mestu auðlinda þjóðarinnar.  Í þessari ferð gefst þátttakendum kostur á að ferðast um óbyggðir þar sem fyrirhugað er að ráðast í framkvæmdir sem munu raska náttúru. Eru það rétt skref fyrir land og þjóð ?  Eftir slíka ferð getur hver og einn metið það fyrir sig.

Fararstjórn
Reynir Traustason 
Innifalið
Sigling, gisting í Norðurfirði, kjötsúpuveisla og fararstjórn.

Leiðarlýsing

1.d., miðvikud. Gengið á Reykjaneshyrnu. Um kvöldið verður fundur um dagskrá næstu daga.

2.d. Siglt í Eyvindarfjörð. Gengið upp með Eyvindarfjarðará og tjaldað í grænni lautu. 4 km. Hækkun 100 m.

3.d. Pakkað saman og gengið upp á heiðina með fossum og ám. Tjaldað síðdegis við Hvalárvatn. Gengið um svæðið sem áformað er að leggja undir uppistöðulón Hvalárvirkjunar. 7 kkm. Hækkun 300 m.

4.d. Gengið niður með Hvalá. Staldrað við hjá Drynjanda, og síðan haldið yfir Húsá. 8 km. Sund í Krossneslaug og kjötsúpa á Kaffi Norðurfirði. Gist á Valgeirsstöðum.

5.d. Stutt ganga á Urðartind þaðan sem sér yfir gengnar slóðir. 4 km. Hækkun 400  m. Heimför kl. 13.

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

 • Bakpoki, ekki of stór
 • Svefnpoki, léttur og hlýr
 • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
 • Tjald og tjalddýna
 • Göngustafir
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Höfuðljós
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Broddar, ef þurfa þykir
 • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

 • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
 • Verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði / þvottapoki
 • Sólvarnarkrem og varasalvi
 • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

 • Prímus, eldsneyti og pottur
 • Eldspýtur
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

 • Góðir gönguskór
 • Vaðskór / skálaskór
 • Tvö pör mjúkir göngusokkar
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Nærbuxur til skiptana
 • Nærföt, ull eða flís
 • Flís- eða ullarpeysa
 • Millilag úr ull eða flís
 • Göngubuxur
 • Stuttbuxur
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar

Matur

 • Frostþurrkaður matur
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Haframjöl
 • Smurt brauð og flatkökur
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar