Ferð: Hekla

Hálendið
Hekla
Drottning íslenskra eldfjalla
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Gengið á Heklu, eitt þekktasta og virkasta eldfjall landsins sem oft hefur verið nefnt drottning íslenskra eldfjalla.

Lagt er upp frá Skjólkvíum við Heklurætur. Gangan er um það bil 16 km með 900 m hækkun og gert er ráð fyrir að ferðalagið taki 6-7 klst. Þátttakendur eru hvattir til að klæða sig vel því það verður kalt á toppnum og gæta að því að leiðin er vatnslaus.

Sameinast er í bíla/jeppa við skrifstofur FÍ að morgni laugardags. Þeir sem vilja hitta hópinn við upphafsstað göngunnar aka þjóðveg eitt (Suðurlandsveg) í austur og beygja inn á veg #26 við Landvegamót. Á móts við Búrfell er svo beygt inn á F-225 sem vísar á Landmannalaugar. Skammt þar fyrir innan er skilti sem vísar á Heklu og liggur sá vegur að bílastæði við Skjólkvíar. Þessi síðasti vegaspotti á F-225 er jeppaslóð og varhugaverð fyrir fólksbíla.

Haft verður samráð við jarðfræðinga og því aðeins lagt af stað að ekki sé búist við gosi!

Í þessari ferð verður gengið á einn af hundrað hæstu tindum landsins. Sjá nánar.

Pakkað fyrir dagsferð

Dagsferðir eru mismunandi og geta tekið frá örfáum klukkustundum upp í hálfan sólarhring.  Listinn hér að neðan er því ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar, veðri og árstíma.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir