Ferð: Kverkfjöll og Herðubreið

Hálendið
Kverkfjöll og Herðubreið
Andstæður elds og íss og sjálf fjalladrottningin
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Einhverjar hrikalegustu andstæður elds og íss á Íslandi er að finna í Kverkfjöllum í norðanverðum Vatnajökli, skammt frá eldstöðinni í Bárðarbungu og Holuhrauni. Þetta er einstakt svæði sem fáir hafa augum litið.

Ekki langt frá er drottning íslenskra fjalla, Herðubreið 1682 m, en ganga á hana er stórkostleg upplifun.

Þátttakendur koma á eigin vegum til Akureyrar. Hópurinn safnast saman á hádegi fyrsta daginn við skrifstofu Ferðafélags Akureyrar, Strandgötu 23, og ekur þaðan í samfloti á eigin jeppum. 

Mannbroddar, ísöxi, gönguhjálmur og göngubelti nauðsynlegur búnaður. 


Í þessari ferð verður gengið á tvo til þrjá af hundrað hæstu tindum landsins. Sjá nánar.

Fararstjórn

Tómas Guðbjartsson

Innifalið
Gisting og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., fimmtud. Ekið um Mývatn í Herðubreiðarlindir. Gengið um þessa einstöku gróðurvin við rætur Herðubreiðar áður en ekið er áfram suður að Dyngjufjöllum og gist í skála í Drekagili. Um kvöldið er gengið inn að fossi við enda Drekagils eða ekið að Holuhrauni og fossinn Skínandi í Svartá skoðaður.

2.d. Ekið frá Dreka í gegnum úfin hraun að vestanverðum rótum Herðubreiðar á móts við Kollóttudyngju. Gengið upp á tind Herðubreiðar í gegnum skriður og brött klettabelti. Að lokinni 5-6 klst. göngu er ekið að Sigurðarskála í Kverkfjöllum, þar sem gist er í tvær nætur. Kvöldganga er á Virkisfell, 1108 m, þar sem í góðu veðri má fylgjast með sólinni síga til viðar bak við Dyngjufjöll og Herðubreið.

3.d. Keyrt inn að íshellunum við Kverkjökul og þeir skoðaðir. Gengið á mannbroddum yfir Kverkjökul og þaðan á snjó svokallaða Löngufönn upp í Efri-Hveradal, 1760 m. Þar er eitt stórkostlegasta jarðhitasvæði á Íslandi þar sem sjóðandi gufa mætir jökulís. Óviðjafnanlegt útsýni þar sem Herðubreið og Snæfell eru í aðalhlutverki en einnig gosstöðvarnar í Holuhrauni. Gengin er sama leið til baka. 10 klst.

4.d. Ekið í Hvannalindir. Stutt ganga og svo ekið áfram til Akureyrar um Möðrudal.

Með hjartalækni í Kverkfjöllum

Ferð með Tómasi Guðbjartssyni, hjartaskurðlækni og leiðsögumanni, í Kverkfjöll er skemmtileg áskorun fyrir fjallafólk í góðu formi. Ferðin liggur um jökla og hverasvæði og andstæðurnar eru á köflum yfirþyrmandi. Kverkfjöll voru ekki í alfaraleið fyrr en árið 1970 þegar Kreppa var brúuð. Tómas starfaði sem leiðsögumaður meðfram læknanámi og fór þá 20 ferðir í Kverkfjöll. Eftir áralangt hlé snéri hann aftur sem fararstjóri. Hann býr að yfirfburðaþekkingu á þessu svæði.

Fyrsta daginn er ekið í Hvannalindir. Þaðan liggur leiðin í Sigurðarskála, einn flottasta fjallaskála landsins, þar sem fólk heldur til.

Annan dag ferðarinnar er stefnt á Efri-Hveradal sem er í 1760 metra hæð. Þar er eitt magnaðasta háhitasvæði landsins þar sem eldur og ís mætast. Gengið er á mannbroddum yfir Kverkjökul en svo tekur snæviþakin Langafönn við áður en undur Efri-Hveradals opnast. Við góð skilyrði fær fólk frábært útsýni af þessu svæði. Herðubreið, Snæfell,  Upptyppingar blasa við þegar skyggni leyfir. Þá sjást Dyngjufjöll ásamt Kattbekingum. Og svo er það Holuhraun.

Gangan í Efri-Hveradal og aftur í skálann tekur að lágmarki 10 klukkustundir. Þessi ganga er, almennt séð, á færi þeirra sem hafa getu til að ganga á Hvannadalshnúk.

Síðasta daginn í ferðinni er gengið á Biskupafell áður en haldið er áleiðis til Akureyrar með stuttri viðkomu í Herðubreiðarlindum. Á þessu svæði er sandur og hraun ríkjandi en fábrotin flóra. En þetta landslag og auðn þykir mörgum vera mjög heillandi.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur