Ferð: Síðsumar og bryggjuball

Strandir
Síðsumar og bryggjuball
Skemmtileg stemning í fámennasta hreppi landsins
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Árneshreppur á Ströndum er einn fámennasti hreppur á landinu. Svæðið er ægifagurt og mannlífið skemmtilegt.

Eftir hressandi fjallgöngu verður skemmtilegt að detta inn á harmónikkuball á bryggjusvæðinu.

Gist í skála Ferðafélags Íslands á Valgeirsstöðum.

Fararstjóri/ar

Reynir Traustason

Innifalið
Gisting, kjötsúpuveisla og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., fimmtud. Fólk kemur sér fyrir í skála FÍ. Stutt gönguferð um nágrennið.

2.d. Gengið á fjallið Glissu, upp Trékyllisheiði og um Smalaveg. 15 km. Hækkun 450 metrar. Eitt minnsta kaupfélag landsins heimsótt og gengið um byggðakjarnann í Norðurfirði. Sund í hinni dásamlegu Krossneslaug. Kvöldvaka. Söngur og sögustund þar sem meðal annars verður sagt frá fréttaritaranum Regínu Thorarensen sem skrifaði árum saman frá Ströndum.

3.d. Gengið á Örkina frá Kjörvogi. Komið við í Kistuvogi á heimleiðinni og aftökustaðurinn skoðaður. Sundsprettur í Krossneslaug og kjötsúpa á Kaffi Norðurfirði. Að kveldi er svo hið rómaða bryggjuball og það verður leiftrandi stuð á Kaffi Norðurfirði og á bryggjunni þar sem harmónikkan verður þanin.

4.d. Gestir pakka saman og ganga á Reykjaneshyrnu. Komið við á Gjögri. Gengið um þorpið og saga staðarins rifjuð upp. Náttúrulaugin skoðuð. Sjósund fyrir þá sem vilja áður en hópurinn kveður.

Kaupfélagið og Örkin

Árneshreppur er nyrsta byggð á Ströndum. Samfélagið lifir að mestu á landbúnaði eins og um aldir. Ferðamannastraumurinn ógurlegi hefur ekki náð þangað nema að litlu marki. Flest er eins og það áður var.

Heimsókn í litla kaupfélagið er afar skemmtileg. Þar má fá allt frá þungunarprófum og upp í veiðarfæri. Kaffi Norðurfjörður er veitingastaður sem rómaður er af þeim sem notrið hafa veitinga. Sundlaugin í Krossnesi stendur í fjöruborðinu og er fyrir löngu heimsþekkt. Gesturinn horfir út á hafið á milli sundspretta þar sem sjá má öldur brotna á óveðursdögum. Þegar lyngt er má spegla sig í haffletinum.

Heimsókn í Kistuvog er áhrifarík. Þar áttu sér stað síðustu galdrabrennur á Íslandi þegar nokkrir menn voru settir á bálið fyrir að leggja álög á konur í byggðarlaginu með þeim afleiðingum að þær misstu ráð og rænu um tíma. En það urðu ekki allir eldinum að bráð. 

Árneshreppur er rammaður inn af fallegum fjöllum sem hvert og eitt veita skemmtilega upplifun. Örkin er eitt þeirra fjalla sem gengið verður á í ferðinni. Fjallið sækir að líkindum nafn sitt í Biblíuna og er jarðfræðilega á meðal elstu fjalla landsins eða 11 milljón ára. Þaðan er frábært útsýni, allt að Hornbjargi í norðri. Og það vekur sterkar tilfinningar að hugsa um Nóa og Örkina þar sem maður stendur á Arkartindi.

Heimsókn í Árneshrepp með fjallgöngum og harmónikkuballi á bryggjunni er ávísun á ljúfa daga í ystu byggð. Þarna er að finna gamla Ísland í sinni fegurstu mynd.

Reynir Traustason fararstjóri er skálavörður Ferðafélags Íslands í Norðurfirði. Hann hefur undanfarin sumur farið á öll helstu fjöll í hreppnum og þekkir vel til fólks og fjalla.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur