Ferð: Stórbrotnir töfrar Hornstranda

Hornstrandir
Stórbrotnir töfrar Hornstranda
Gengið út frá Hornbjargsvita, um Hornbjarg og Hornvík
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Á Hornströndum renna haf og himinn saman í stórbrotinni fegurð og dulúð. Í þessari ferð byrjar ævintýrið með siglingu inn í Jökulfirði og heldur áfram þegar gengið er yfir í Hornbjargsvita, um hið mikla Hornbjarg og blómskrúðið í Hornvík.

Galopin fegurðin blasir alls staðar við. Ekki spillir hin mikla og óvenjulega mannlífssaga sem gefur gönguferðum um friðlandið enn meira gildi.

Gist er í þrjár nætur í Hornbjargsvita og dvalið við náttúruskoðun og gönguferðir. Sameiginlegur matur, fyrir utan nesti fyrsta daginn.

Þátttakendur hafa með sér svefnpoka og fatnað til ferðarinnar sem þeir bera frá Lónafirði yfir í Hornbjargsvita í upphafi ferðar og frá Hornbjargsvita yfir í Veiðileysufjörð í lok ferðar.

Fararstjórn

Lilja Steingrímsdóttir

Innifalið
Gisting, sigling, fullt fæði og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., fimmtud. Siglt í Lónafjörð í Jökulfjörðum þaðan sem þátttakendur ganga með allan farangur, fyrir utan mat, yfir Snókaheiði og í Hornbjargsvita. 14 km. Hækkun 500 m.

2.d. Gengið á Hornbjarg og ef til vill Kálfatinda. Til baka um Almenningaskarð eða Kýrskarð. 14 km.

3.d. Létt ganga um nágrennið, Hrollaugsvík og Bjarnarnes og ef til vill að fossinum Drífanda.

4.d. Gengið um Kýrskarð yfir í Hornvík þar sem vaða þarf Hafnarósinn. Síðan um Hafnarskarð yfir í Veiðileysufjörð þar sem báturinn bíður. 16 km. Hækkun 800 m.

Heimur Hornstranda

Hornstrandir hafa í gegnum tíðina heillað marga. Dæmi eru um að fólk fari áratugum saman á þessar harðbýlu slóðir og uppgötvi stöðugt eitthvað nýtt. Sú var tíð að þéttbýlt var á Hornströndum. Nú er staðan sú að enginn er þar yfir harðasta veturinn en þegar vorar birtist sumarfólkið.

Lilja Steingrímsdóttir fararstjóri opnar fólki þennan heim í sumar þegar siglt verður með hópinn frá Bolungarvík í Lónafjörð þar sem gangan áleiðis á Hornbjargsvita hefst. Farið er yfir Snókaheiði, 14 kílómetra leið, í vitann þar sem Halldór Hafdal Halldórsson staðarhaldari tekur á móti fólki. Rómaðar fiskibollur hans eru væntanlega á matseðlinum. Þá þykju vöfflurnar í Hornbjargsvita vera hnossgæti. Að morgni flaggar Halldór að vanda að viðstöddum gestum. Við það tækifæri er þjóðsöngurinn sunginn af krafti og virðingu.

Daginn eftir verður haldið á Hornbjarg og hugsanlega gengið á Kálfatinda. Á þriðja degi verður haldið um Kýrskarð í Hornvík þar sem Hafnarósinn verður vaðinn. Síðan er lagt á Hafnarskarð og yfir í Veiðileysufjörð þar sem báturinn bíður ferðalanganna. Siglt er sem leið liggur í Bolungarvík þangað sem þreyttir ferðalangar koma reynslunni ríkari,

Þetta er ferð sem hentar flestum og tilvalin fyrir þá sem vilja kynnast svæðinu í fyrsta sinn.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur