Ferð: Þjórsárver

Hálendið
Þjórsárver
Náttúruperla á heimsvísu
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Gengið í og um hin töfrandi Þjórsárver með fararstjóra sem þekkir svæðið afa vel. Þú heyrir hjarta landsins slá og sérð landið okkar frá nýju sjónarhorni.

Gist í tjöldum. Vaðskór þurfa að vera meðferðis.

Fararstjórn
Tryggvi Felixson.
Innifalið
Rúta og fararstjórn.

Leiðarlýsing

1.d., miðvikud. Ekið að mótum Hreysiskvíslar og Þjórsár. Vaðið ofarlega yfir Þjórsárkvísl. Gengið að Arnarfelli og tjaldað. 10-12 km. Ferðin lengist um 4 km ef fara þarf yfir  upphafskvíslar Þjórsár á jökli.

2.d. Gengið á Arnarfell hið mikla, 1137 m, og mögulega á Arnarfell hið litla. Ef ekki viðrar til fjallgöngu verður hugað að gróðurfari í Arnarfellsbrekkum sem eru rómaðar fyrir fjölbreyttan og fagran gróður.

3.d. Tjöld tekin upp og gengið með allan farangur eftir Arnarfellsmúlum framan við Múlajökul. Múlarnir eru vel grónir og þar eru fornar reiðgötur. Á þessum slóðum bjuggu Eyvindur og Halla. Á leiðinni eru kvíslar sem þarf að vaða en helstu torfærur eru Arnarfellskvísl og Miklakvísl. Tjaldað undir Nautöldu. 16 km.

4.d. Gengið í Oddkelsver og náttúrufar skoðað. Blautakvísl vaðin sunnan Nautöldu. Þar eru mýrar, flæðiengjar, tjarnir, rústir og aðrar helstu vistgerðir Þjórsárvera. Komið við á tófugreni. Gengið til baka í Nautöldu og gist. 6 km. Útbúinn baðstaður í Jökulkrika til að skola af sér eftir fjögurra daga göngu. 

5.d. Gengið vestur frá Nautöldu, vaðið yfir Blautukvísl norðan Steingrímsöldu. Gengið eftir söndum í Setur þangað sem hópurinn er sóttur um kl. 15. 12 km. Ekið um Kerlingarfjöll til Reykjavíkur.    

Náttúran ræður för

Eina dýrmætustu náttúruperlu Íslands er að finna í Þjórsárverum, gróðurvininni í skjóli Hofsjökuls. Áratugum saman hefur hugsjónafólk staðið vörð um svæðið sem til stóð að sökkva að mestu undir lón. Árið 1970 hófst baráttan þegar Jón Ólafsson og fleiri Gnúpverjamenn fóru gegn áformum um að sökkva landinu sem er hluti af afrétt Gnúpverjamanna. Þá var talað um svokallað Eyjavatn sem ætlað var að verða uppistöðulón fyrir gríðarlega virkjun. Jóni og félögum hans tókst að stöðva þessi áform en baráttan hefur haldið áfram.

Í þessari ferð er gengið með allt á bakinu. Ferðin er fremur erfið sem ræðst af því að vaða þarf jökulár til að komast á þetta svæði. Til að tryggja öryggi læsir fólk saman örmum áður en lagt er á vatnsfallið.

Þjórsárver eru fjarri skarkala heimsins. Fæstir eiga lýsingarorð yfir það sem fyrir augu ber. Svæðinu er gjarnan lýst sem himnesku. Fólk upplifir það sem kallað er gróðurfarslegt stórveldi þar sem er að finna varpstöðvar heiðargæsa. Fuglar himinsins eiga sér griðland þótt stundum bregði fyrir refum.

Slegið er upp tjaldborgum á tveimur stöðum. Meðal þess sem göngumenn upplifa er að fara á Arnarfell hið mikla og horfa yfir hið mikla víðerni sem stöðugt er ógnað af manninum. Víst er að enginn verður ósnortinn ef þeirri fegurð sem þarna ríkir. 

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

 • Bakpoki, ekki of stór
 • Svefnpoki, léttur og hlýr
 • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
 • Tjald og tjalddýna
 • Göngustafir
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Höfuðljós
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Broddar, ef þurfa þykir
 • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

 • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
 • Verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði / þvottapoki
 • Sólvarnarkrem og varasalvi
 • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

 • Prímus, eldsneyti og pottur
 • Eldspýtur
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

 • Góðir gönguskór
 • Vaðskór / skálaskór
 • Tvö pör mjúkir göngusokkar
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Nærbuxur til skiptana
 • Nærföt, ull eða flís
 • Flís- eða ullarpeysa
 • Millilag úr ull eða flís
 • Göngubuxur
 • Stuttbuxur
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar

Matur

 • Frostþurrkaður matur
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Haframjöl
 • Smurt brauð og flatkökur
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar