Ferð: Um gil, sker og gljúfurbarma

Suðurland
Um gil, sker og gljúfurbarma
Horfnir tímar og heiðarlönd að baki Síðufjöllum
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Bakpokaferð á áhrifasvæði Skaftárelda milli Skaftár og Geirlandsár yfir brekkubrúnir, bunulæki, brunna hóla, skaftfellsk sker og grafin gljúfur.

Þátttakendur koma á eigin vegum á Kirkjubæjarklaustur þar sem ferðin hefst. 

Fararstjórn

Þóra Björk Hjartardóttir og Örvar Aðalsteinsson.

Innifalið
Rúta og fararstjórn

Leiðarlýsing

1.d., laugard. Sameinast í bíla og ekið að Mörtungu II þar sem bílar eru skildir eftir. Þaðan flytur rúta hópinn í Skaftárdal þar sem gangan hefst. Gengið að eyðibýlinu Á sem trónir hátt uppi í snarbrattri hlíð ofan Skaftár. Þaðan liggur leið austur í hinn hlýlega Holtsdal þar sem er tjaldað. 12 km.

2.d. Könnuð umbrot gamalla eldstöðva og síðan gengið um gil og sker að Geirlandsá. Áin vaðin og tjaldað skammt frá hinum tignarlega Fagrafossi. 15 km.

3.d. Hinu djúpa gljúfri Geirlandsár með sínum tilkomumiklu fossum og flúðum fylgt til byggða. Í þröngu dalverpi verður fyrir einstakt mannvirki gert úr stuðlabergi. Gengið í bíla í Mörtungu. 13 km.

Heiðarbýli og horfið mannlíf

Tjaldferð með allt á bakinu er söguferð þar sem saman fara upplifun, saga horfinna tíma og náttúra sem er fáu lík.

Örvar Aðalsteinsson og Þóra Björk Hjartardóttir gjörþekkja sögu og náttúru svæðisins. Þau munu staldra við þar sem er að finna rústir og minjar um mannvistir. Náttúruhamfarir urðu til þess að byggð eyddist á þessum slóðum. Þarna voru heiðarbýli í allt að 400 metra hæð. Brostin vistabönd og skortur á landrými urðu til þess að fólk kom sér upp búi á svo harðbýlum slóðum. Staldrað verður við hjá rústum að bænum Á sem varð undir hrauni en var endurbyggður í snarhallandi landi, allt að 30 gráðu halla.

Dagleiðir eru hóflegar eða á bilinu 12 til 15 kílómetrar. Fólk hefur til nægan tíma til að njóta og gaumgæfa. Tjaldað verður í Holtsdal og þeirra dásemda notið sem fylgir því að sofa í tjaldi í guðsgrænni náttúrunni. Margir þeirra sem prófa að ferðast með allt á bakinu og gista í tjöldum sækjast eftir þannig ferðalögum. Það er engu líkt að vera sinn eigin herra.

Eftir ferðalag um söguslóðir þar sem fossar, gljúfur og hraun skapa landslag sem engu er líkt liggur leiðin í Mörtungu þar sem ferðin endar.

Pakkað fyrir bakpokaferð

Þegar gengið er með allt á bakinu er nauðsynlegt að skera útbúnað niður eins og hægt er, án þess að sleppa nauðsynjum. Hafið bakpokann ekki þyngri en þið treystið ykkur til að bera. Hæfileg þyngd fer eftir líkamsástandi hvers og eins en oft er miðað við að bakpoki skuli ekki vera þyngri en 15-20% af líkamsþynd þess sem ber hann.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála, þá má í flestum skálum Ferðafélags Íslands finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis/kamars með klósettpappír.

Ýmislegt

 • Bakpoki, ekki of stór
 • Svefnpoki, léttur og hlýr
 • Bakpokahlíf / plastpokar inn í bakpokann
 • Tjald og tjalddýna
 • Göngustafir
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Höfuðljós
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu / skíðagleraugu
 • Broddar, ef þurfa þykir
 • Peningar

Snyrtivörur / sjúkravörur

 • Hælsærisplástur, plástur og teygjubindi
 • Verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði / þvottapoki
 • Sólvarnarkrem og varasalvi
 • Eyrnatappar

Mataráhöld / eldunartæki

 • Prímus, eldsneyti og pottur
 • Eldspýtur
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Vasahnífur / skæri

Fatnaður

 • Góðir gönguskór
 • Vaðskór / skálaskór
 • Tvö pör mjúkir göngusokkar
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Nærbuxur til skiptana
 • Nærföt, ull eða flís
 • Flís- eða ullarpeysa
 • Millilag úr ull eða flís
 • Göngubuxur
 • Stuttbuxur
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar

Matur

 • Frostþurrkaður matur
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Haframjöl
 • Smurt brauð og flatkökur
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar