Ferð: Um Kóngsveg frá Þingvöllum

Suðurland
Um Kóngsveg frá Þingvöllum
Söguganga fyrir fróðleiksfúsa sælkera
Ert þú félagsmaður í FÍ Nei
Lýsing

Genginn er fegursti hluti Kóngsvegarins sem lagður var fyrir konungskomuna 1907.

Fræðst um sögu Kóngsvegarins og áhrif konungsheimsóknarinnar á fullveldi Íslands. Fræðst um náttúrusögu Þingvalla og Laugarvatns. Leitast við að njóta afurða sveitanna bæði í mat og drykk.

Þátttakendur koma á eigin bílum að Vatnskoti við Þingvallavatn í upphafi ferðar. Gist er í eina nótt í uppbúnum rúmum á gistiheimilinu við Dalbraut á Laugarvatni.

Fararstjórn

Ólafur Örn Haraldsson.

Innifalið
Rúta, gisting, smakk á afurðum sveitarinnar, gufubað í Fontana, kvöldverður í Lindinni, hádegisverður í Efstadal og fararstjórn.

Leiðarlýsing

1.d., laugard. Gengið á bökkum Þingvallavatns frá Vatnskoti, í Vatnsvik að Vellankötlu, yfir Hrafnagjá að Gjábakka og Kóngsveginum fylgt eftir gamla Gjábakkavegi áleiðis að afleggjaranum að Bragabót við Tintron. Þaðan flytur rúta hópinn að Laugarvatnsvöllum og frægum búsetuhellum sem hafa verið innréttaðir í upprunalegum búningi. Fróðleikur um sögu og náttúru. Rúta flytur bílstjóra aftur að Vatnskoti til að ná í bíla. Ekið að Laugarvatni þar sem hópurinn grefur upp glóðheitt hverabrauð og borðar með reyktum silungi frá Útey og viðeigandi drykkjum. Aðgangur að gufubaðinu Fontana. Sameiginlegur kvöldverður í veitingahúsinu Lindinni. 10 km.

2.d. Ekið á einkabílum að Úthlíð þar sem bílarnir eru skildir eftir en rúta keyrir hópinn aftur í Laugardal þar sem gangan hefst eftir Kóngsveginum. Gengið að Efstadal og borðað á óvenjulegum veitingastað sem tengdur er fjósi og hlöðu. Kóngsveginum fylgt áfram í gegnum skóginn að frægum Brúarfossi og þaðan að Úthlíð þar sem ferð lýkur. 16 km.

Með forseta um Kóngsveg

Skemmtileg ferð er í boði um Kóngsveg frá Þingvöllum um Laugarvatn og að Úthlíð. Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands og fyrrverandi þjóðgarðsvörður, fer með fólk um þessar slóðir. Hann er á heimavelli í orðsins fyllstu merkingu þar sem hann var alinn upp á Laugarvatni. Foreldrar hans, kennararnir Haraldur Matthíasson og Kristín Sigríður Ólafsdóttir, lögðu mikla áherslu á útivist og ferðalög. Þau ferðuðust mikið gangandi með börn sín um nágrenni sitt og víða um land.

Þessa nýtur Ólafur, sem sjálfur er að meðal þekktustu útivistarmanna landsins og kunnur fyrir áhuga sinn á náttúruvernd. Auk þess að hafa farið gangandi þvert yfir Grænlandsjökul þá hefur hann gengið á Suðurpólinn. Hann var þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann býr því yfir mikilli þekkingu á svæðinu og fólk fær að njóta þess á göngunni.

Framkvæmdin við Kóngsveginn var á sínum tíma gríðarlega kostnaðarsöm. Vegurinn, sem er rúmir 20 kílómetrar, var lagður í tilefni af heimsókn Friðriks konungs áttunda árið 1907. Vegalagningin hófst árið 1906 og fór stærstur hluti af fjárlögum til vegagerðar í þá framkvæmd. Hermt er að um 14 prósent af fjárlögum þess tíma hafi farið í verkefnið. Til stóð að konungur myndi ferðast með vagni en þegar til kom kaus hann að ferðast á hestbaki.

Gist verður á Laugarvatni. Í ferðinni fer saman útivist og fræðsla. Á leiðinni er sagan við hvert fótmál. Að leiðarlokum mun fólk verða fróðara um bæði fortíð og nútíð á þessum merku söguslóðum Íslendinga þar sem landsmenn komu saman og framtíðarsýn þjóðarinnar var gjarnan mótuð.

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

 • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
 • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
 • Peysa úr ull eða flís
 • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

 • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
 • Áttaviti, landakort og GPS tæki
 • Smurt nesti fyrir daginn
 • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Vatnsbrúsi
 • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
 • Göngustafir
 • Myndavél og kíkir
 • Sólgleraugu
 • Sólarvörn og varasalvi
 • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
 • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
 • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
 • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
 • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

 • Svefnpoki og lítill koddi
 • Bolur til skiptana og til að sofa í
 • Auka nærbuxur og sokkar
 • Höfuðljós
 • Tannbursti og tannkrem
 • Sápa / sjampó
 • Lítið handklæði
 • Eyrnatappar
 • Skálaskór
 • Peningar
 • Núðlur eða pasta í pokum
 • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
 • Eitthvað gott á grillið
 • Kol og uppkveikilögur
 • Haframjöl
 • Brauð og flatkökur
 • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
 • Hrökkbrauð og kex
 • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
 • Kakó, te og/eða kaffi
 • Súpur
 • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

 • Tjald og tjalddýna
 • Prímus og eldsneyti
 • Eldspýtur
 • Pottur
 • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
 • Diskur og drykkjarmál
 • Hnífapör
 • Vasahnífur / skæri
 • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur