Börn í tjaldi

Það er fátt sem börnum finnst eins skemmtilegt og mikið ævintýri og að sofa í tjaldi. Allt er jafn gaman, valið á tjaldstað, uppsetning tjaldsins og ekki síst að skríða svo ofan í svefnpokann, kannski með Andrésblað og höfuðljós.

Börn í tjaldi

Það er í góðu lagi að sofa með ungabörn í tjaldi. Þetta eigum við Íslendingar að vita manna best enda vön að pakka börnum út í vagna vetur, sumar, vor og haust. Mestu máli skiptir að einangra tjaldbotninn með einhvers konar tjalddýnum og hafa barnið nálægt sér. Foreldrar geta til dæmis rennt svefnpokunum sínum saman og sofið með barnið á milli sín.

Ef setja á eldri börn ein í svefnpoka, þarf að passa að klæða þau nokkuð vel, því þau hreyfa sig mikið í svefni og eru oftast komin upp úr pokanum þegar líður á nóttina. Annars þarf ekki að hafa of miklar áhyggjur af kuldanum, börn eru að öllu jöfnu miklar hitaveitur og ef þeim verður kalt, þá vakna þau og láta vita af sér.

Þegar börnin eldast geta þau sofið með eldri systkinum sínum eða vinum í sértjaldi sem gjarnan færist æ fjær tjaldi foreldranna eftir því sem aldur barnanna hækkar!