Fyrir nokkru síðan komu upp veikindi á Laugaveginum þar sem grunur var um að mætti rekja til mengunar í vatnsbólum. Nú hafa borist niðurstöður úr sýnatökum úr vatnsbólum á skálasvæðum FÍ á Laugaveginum. Niðurstöður staðfesta að vatnið stenst kröfur heilbrigðisyfirvalda, í Landmannalaugum, í Álftavatni, í Hvanngili og í Emstrum. Í Hrafntinnuskeri greindust coli gerlar í vatni, sem eru ekki e coli gerlar og ekki alvarlegs eðlis. Unnið er að því að tryggja að yfirborðsvatn komist ekki í vatnsbrunn í Hrafntinnuskeri. Á sama tíma hafa aðgerðir FÍ og ferðaþjónustuaðila á svæðinu gengið vel og engin veikindi greinst síðustu daga og hafa í hlutfalli af fjölda göngufólks á svæðinu verið lítil. Áfram hefur verið unnið með aukin þrif og sóttvarnir, m.a. þrif með klórblöndum og lögð áhersla á persónubundnar sóttvarnir, þrífa hendur vel og spritta, þrífa alla snertifleti og ekki síst mataráhöld og borðbúnað, með heitu vatni og sápu fyrir og eftir notkun.