Ferðafélag Íslands og Háskóli Íslands hlutu viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun. Áslaug Árna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar afhenti verðlaunin.
Vísindaverðlaun Rannís eru veitt fyrir verkefnið „Með fróðleik í fararnesti“
Um er að ræða fræðandi gönguferðir í náttúrunni þar sem fræða- og vísindafólk HÍ miðlar af þekkingu sinni til almennings, barna og ungmenna um fjölbreyttar rannsóknir, ekki síst á lífríki og umhverfi. Með fróðleik í fararnesti leggur áherslu á markvissa og skemmtilega fræðslu til almennings um leið og boðið er upp á hreyfingu og samveru fyrir alla fjölskylduna.
Fræðagöngurnar byrjuðu sem nýjung í vísindamiðlun til almennings og var þeim strax afar vel tekið af almenningi. Markmiðið með ferðunum er að veita fólki á öllum aldri spennandi valkost til að hreyfa sig í borgarlandinu og fá að auki skemmtilegan og afar gagnlegan fróðleik um rannsóknir, nýsköpun, vísindi og fræði og í raun flest það sem ber fyrir augu í göngunum.
Ætlunin í upphafi var að brydda upp á ferðunum sem nýjum vísindamiðlunarvalkosti fyrir fjölskyldur á aldarafmæli Háskóla Íslands 2011 í samstarfi við Ferðafélag barnanna sem er angi undir FÍ. Hins vegar urðu vinsældirnar það miklar að ekki var nokkur möguleiki að hætta. Á yfirstandandi ári hefur verið metþátttaka í öllum ferðum, en aldrei í 12 ára sögu verkefnisins hafa fleiri mætt í fræðagöngurnar. Umfjöllun um verkefnið hefur einnig verið afar ríkuleg í fjölmiðlum sem hefur aukið áhrif miðlunarinnar á samfélag.
Pöddur, fjara, fuglar, fiskar, samfélag og sjálfbærni
Gríðarlegur fjöldi vísindafólks hefur stýrt þessum göngum en líklega er enginn þekktari en Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við HÍ og núverandi forseti Íslands. Hann leiddi göngu ásamt Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði við HÍ, en þeir fjölluðu um mótmæli í miðborginni og glæpi og refsingu í sögulegu samhengi. Af öðrum viðfangsefnum má nefna norðurljós, pöddur, fiska og farfugla og hvernig megi nýta afurðir náttúru Íslands, eins og krækling, jurtir og sveppi. Fræðsla um jarðfræði, eldgos og jökla hefur líka verið vinsæl, auk þess sem rætt hefur verið um sögu, menningu, nýsköpun og sjálfbærni.
Hver ganga tekur fyrir ákveðið viðfangsefni þar sem vísinda- og fræðafólk miðlar þekkingu og rannsóknum beint til þátttakenda. Þannig er mikilvægi rannsókna fyrir samfélagið og umhverfið í brennidepli í bland við skemmtilega fræðslu og holla útivist. „Með fróðleik í fararnesti“ er því verðugur handhafi viðurkenningar Rannís fyrir vísindamiðlun árið 2023.
Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd félagsins og sagði verðlaunin mikinn heiður og viðurkenningu. Ólöf þakkaði HÍ fyrir frábært samstarf sem og öllum þeim fjölmörgu aðilum sem lagt hafa verkefninu lið.