Náttúra, útivist og lífsgæði

Það er mér sérstakt ánægjuefni, á mínu fyrsta ári sem forseti félagsins, að sjá Ferðaáætlun FÍ 2024 birtast á ný uppfærðri heimasíðu félagsins. Áætlunin er að vanda uppfull af tilboðum af fjölbreyttum toga, fyrir unga sem aldna og öll þar á milli. Það er sama hvort þú ert að stíga þín fyrstu skref í útivist eða ert reynd útivistarmanneskja, þú finnur ferð við þitt hæfi í ferðaáætlun FÍ 2024.

 

Við búum við þau forréttindi hér á Íslandi að hafa aðgang að einstakri náttúru, náttúru sem FÍ hefur alla tíð lagt mikið upp úr að vernda en gera um leið aðgengilega fyrir almenning með skynsamlegri innviðauppbyggingu. Mikil verðmæti eru fólgin í náttúru landsins og í mörgum tilfellum er um að ræða takmörkuð gæði sem við þurfum að huga vel að og vernda fyrir komandi kynslóðir. Með stórauknum fjölda ferðamanna er enn mikilvægara en áður að við sameinumst um og virðum þær leikreglur sem settar eru, höfum hagsmuni náttúrunnar ætíð að leiðarljósi og vörumst að valda óafturkræfum breytingum.

 

Ferðafélag Íslands hvetur ykkur öll til að ferðast sem mest um okkar fagra land og njóta alls þess sem náttúran hefur upp á að bjóða. Framboð ferða er  fjölbreytt, bæði styttri og lengri ferðir ásamt fjölda göngu- og hreyfihópa að ógleymdu Ferðafélagi barnanna og FÍ Ung.  Þá kynna fjölmargar deildir ferðaáætlun sína á heimasíðu  félagsins.  Allar okkar ferðir státa af reynslumiklum fararstjórum sem við erum stolt af. Þau hafa öryggi okkar ávallt í fyrirrúmi um leið og þau miðla af þekkingu sinni um sögu lands og þjóðar.

Það er fátt betra en að leggja land undir fót, upplifa íslenska náttúru og efla líkama og sál í góðum félagsskap. Þar liggja raunveruleg lífsgæði. Ferðafélag Íslands býður upp á þetta allt og við hlökkum til að sjá þig, hvort sem er á fjöllum eða sléttlendi.

 

Með hlýjum ferðafélagskveðjum,

 

Ólöf Kristín Sívertsen

forseti Ferðafélags Íslands

 

Ferðaáætlun 2024