Ferðafélag Íslands býður upp á fjölda áhugaverðra námskeiða í vetur. Þar kennir margra grasa fyrir þá sem vilja auka á þekkingu sína og efla öryggi sitt á fjöllum.
Ferðaáætlun FÍ fyrir 2021 er komin út og má segja að aðfangadagskvöld útivistarfólks sé runnið upp og tími til að opna pakkana. Allir fá þar eitthvað fallegt hvort sem þeir vilja stutta ferð eða langa, létta eða erfiða. Hér gildir máltækið: ekki missir sá sem fyrstur fær og ekki eftir neinu að bíða að tryggja sér pláss í draumaleiðangri sumarsins.
Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands er nú í fyrsta skipti gefin út eingöngu á rafrænu formi og eiga allir aðgang að henni á heimassíðu félagsins fi.is.
Þrjár aðalástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi hefur æ stærri hópur félagsmanna eingöngu nýtt sér áætlunina með nettengingu en slíkt má segja um lestur og margvíslega miðlun upplýsinga í seinni tíð s.s. í blaða- og bókaútgáfu, birtingu fréttabréfa, árskýrslu o.s.frv. Í öðru lagi vill Ferðafélagið leggja sitt af mörkum í umhverfismálum þ.á m. að draga úr pappírsnotkun sem óneitanlega er umtalsverð við prentun og útgáfu ferðaáætlunar í tugþúsunda tali. Í þriðja lagi sparast talsverð fjárupphæð með þessari dreifingaraðferð en félagið hefur leitað allra leiða til þess að draga úr rekstrarkostnaði vegna mikils tekjufalls svipað og aðrir rekstraraðilar ekki síst þeir sem starfa í ferðaþjónustu.
,,Sígildar ferðir og nýjar í bland, sumarleyfisferðir, dagsferðir, helgarferðir og skíðaferðir, lýðheilsuverkefni, fjallaverkefni og hreyfihópar, sem og Ferðafélag barnanna, FÍ Ung og deildaferðir. Það eiga allir að geta ferðir við sitt hæfi, " segir Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefnda um nýútkomna Ferðaáætlun FÍ 2021.
Ferðaáætlun FÍ 2021 birtist hér á heimasíðunni í dag og hefjast þá bókanir um leið. Ferðaáætlunin 2021 er óvenju glæsileg og hátt í tvöhundruð ferðir í áætluninni, allt frá gönguleiðum í byggð yfir á hæstu tinda. Sumarleyfisferðir, helgarferðir, dagsferðir, skíðaferðir, fjalla- og hreyfiverkefni sem og Ferðafélag barnanna og FÍ Ung og deildaferðir eru í áætluninni. Að venju eru bæði sígildar ferðir sem og nýjar ferðir og allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.