Fjölmennt var á félagsfundi FÍ í gærkvöldi sem haldinn var á Hilton Nordica í gærkvöldi en rúmlega 300 manns sóttu fundinn.
Fundurinn hófst með framsögum þriggja stjórnarmanna og framkvæmdastjóra um stöðu félagsins. Að því loknu var mælendaskrá opin. Þar tóku ýmsir til máls og voru settar fram hugmyndir og vangaveltur um starf félagsins, áreitismál og rekstur. Að loknum málefnalegum erindum fjölmargra félaga voru lagðar voru fram fjórar tillögur á fundinum. Fyrst var borin undir atkvæði sú tillaga sem gekk lengst, þ.e. að stjórnin myndi segja af sér strax og boða til aðalfundar. Sú tillaga var felld með yfirgnæfandi meirihluta. Samkvæmt fundarsköpum voru næst greidd atkvæði um frávísun á vantrauststillögu sem lögð var fram. Frávísunartillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða sem þýddi að vantrauststillagan var ekki borin undir atkvæði. Að síðustu var lögð fram traustsyfirlýsing við stjórn og framkvæmdastjóra félagsins og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Framundan er mikil vinna við að endurheimta trúverðugleika félagsins sem brotið hefur á í umfjöllun undanfarinna vikna. Við munum líta í eigin barm í samstarfi við félagsmenn, rýna til gagns og bæta ferla og vinnulag. Til þess erum við reiðubúin öll sem eitt því við vitum að það er ávallt hægt að gera betur.
Með vinssemd fh. stjórnar Ferðafélags Ísland,
Sigrún Valbergsdóttir
Forseti Ferðafélags Íslands