65 FÍ Landvættir luku keppni í Urriðavatnssundinu nú um helgina

Urriðavatnssundið er ein af aðalþrautum Landvætta, til þess að fá nafnbótina Landvættur þarf viðkomandi ljúka keppni í fjórum þrautum í fjórum landshlutum á einu ári.  Þrautirnar eru 50km skíðaganga á Ísafirði, Jökulsárhlaupið, 32.7km hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis eða 25km óbyggðarhlaup eftir endilöngum Þorvaldsdal í Eyjafirði, 60km hjólreiðar út frá Hafnarfirði og svo Urriðavatnssundið, nálægt Fellabæ á austurlandi, sem er 2.5km langt.  

Hluti af þeim 65 FÍ Landvættum sem tóku þátt í sundinu nú um helgina.

Urriðavatnssundið, sundleiðin 2.5km


Alls 159 luku keppni í Urriðavatnssundinu nú um helgina, ein þeirra er Ingibjörg Hrönn Pálmadóttir eða Inga eins og hún er kölluð, „af öllum þrautunum kveið mér mest fyrir sundinu en þetta gekk bara vonum framar.“


FÍ Landvættir
Hjá Ferðafélagi Íslands er starfræktur sérstakur Landvættahópur undir stjórn Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall sem heldur utan um æfingar og keppni í þrautum félaganna. Alls luku 65 FÍ Landvættir keppni í Urriðavatnssundinu nú um helgina. Inga er mjög ánægð með Landvættahóp FÍ, „Brynhildur og Róbert hafa staðið sig rosalega vel, við fáum æfingarprógramm fyrir allar þrautirnar og þau halda frábærlega utan um þetta hjá okkur. Við höfum fengið svo mörg góð ráð frá þeim, það hefur hjálpað okkur gífurlega. Þau fá 10 í einkunn frá mér!“

Inga Hrönn fremst á mynd með vinkonum sínum í "Elítuhópnum"

„Elítuhópurinn“
Inga tilheyrir vinkvennahóp sem samanstendur af 9 konum og kallar sig „Elítan“. „Við allar í hlaupahóp saman og höfum hlaupið saman nokkur marathon og má segja að við höfum platað hvora aðra til að taka þátt í Landvættaprógramminu og stefnum ótrauðar á að klára þrautirnar saman, við erum ótrúlega samheldin hópur,“ segir Inga.

„Hópstuðningurinn er svo gífurlega mikilvægur. Stelpurnar styðja mann áfram og það er svo mikilvægt að finna stuðninginn, sérstaklega þegar reynir á, maður heyrir hrópin og köllin frá þeim langar leiðir,“ segir Inga ennfremur.  

 
Næsta þraut er Jökulárhlaupið
Næsta þraut Landvætta er Jökulsárhlaupið en það er 33 km fjallahlaup þann 11. ágúst n.k. „Undirbúningur er í fullum gangi fyrir hlaupið og verður frábært að ná að klára allar fjórar þrautirnar og fá nafnbótina Landvættur,“ segir Inga Hrönn og reimar á sig skónna og hleypur af stað.