75 ára aldursmunur á yngsta og elsta göngugarpi

Gengið var í öllum landshlutum í Lýðheilsugöngum FÍ sl. miðvikudag og verðum þeim göngum haldið áfram alla miðvikudaga nú í september. „Þátttakan var framúrskarandi góð sl. miðvikudag, við áætlum að um 3 þúsund manns hafi tekið þátt í göngunum víðsvegar um landið,“ segir Ólöf Sívertsen verkefnastjóri Lýðheilsugangna FÍ.

„Það var greinilegt að margir höfðu beðið eftir þessum göngum og ekki skemmdi fyrir að veðrið lék við flestalla landsmenn, sumir segja jafnvel að þetta hafi verið einn besti sumardagurinn hér á suðvesturhorninu. Sól, logn og 14 gráðu hiti í september, það er ekki hægt að biðja um það betra!,“ segir Ólöf ennfremur.

75 ára aldursmunur á yngsta og elsta göngugarpi
Sem fyrr voru þátttakendur á öllum aldri, t.d. var 75 ára aldursmunur á yngsta og elsta göngugarpi. „Yngsti þátttakandinn sem við höfðum spurnir af sl. miðvikudag er þriggja ára og sá elsti 87 ára sem sýnir okkur glögglega að göngurnar höfða svo sannarlega til allra aldurshópa sem er einmitt það sem við lögðum upp með,“ segir Ólöf.

Spennandi göngur framundan
„Það verður mikið um spennandi göngur næsta miðvikudag og má þar t.d. nefna Tónlistargöngu í Hafnarfirði þar þátttakendur verða fræddir um helstu samkomu-, ball- og tónlistarstaði áður fyrr. Í Vogum verður herminjunum á Camp Daily gerð skil, í Bolungarvík verður Ástarvikuganga upp í Surtarbrandsnámu í Syðridal, á Akranesi verður gengið um gamla bæinn og í Húnaþingi vestra verður fjaran gengin frá Ytri Ánastöðum að Skarði.  Þá verður gengið um hið stórmerka land Hofstaða í Skútustaðahreppi, gengið að Skinnbeðju á Fljótsdalshéraði og sagan um nykurinn rifjuð upp auk þess sem gengið verður á Gíslholtsfjall í Rangárþingi ytra,“ segir Ólöf um næstu göngur n.k. miðvikudag.

Þetta eru einungis örfáar af þeim spennandi göngum sem verða í boði en nánari upplýsingar um allar göngur má finna á heimasíðu sérvefs Lýðheilsugangna FÍ fi.is/lydheilsa