Endurbætur og vegghleðsla í Hvítárnesi

Skáli FÍ í Hvítárnesi við Hvítárvatn á Kili er einn fallegasti skáli félagsins en jafnframt sá elsti, byggður árið 1930. Húsið er byggt í þjóðlegum, rómantískum anda með svipmóti gamla íslenska torfbæjarins.  Unnið er yfirhalningu skálans og koma honum í sína upprunalegu mynd. Síðasta sumar hófust endurbætur á langhliðinni eldhúsmegin og hafist handa við nýjan grjóthleðsluvegg. Nýverið hefur vinnu við vegginn verið haldið áfram, það starf hefur reynst mikið og erfitt en alls hafa farið um 16 tonn af grjóti bara í þessa hlið skálans og allt grjót borið og hlaðið með höndunun.  Einn fremsti hleðslumeistari landsins, Unnsteinn Elíasson frá Ferjubakka, hefur haft veg og vanda af grjóthleðslunni sem er listilega gerð. Halldór Hafdal Halldórsson hefur leitt verkið fyrir hönd FÍ.

Verkið gengið vel
„Þótt verkið sé mikið og erfitt þá hefur það gengið ljómandi vel. Við fáum allt grjótið í vegginn úr holtunum hér í kring. Við áætlum að þurfi um 15-16 tonn af grjóti í þennan vegg sem er nú að verða að mestu klár. Við tökum lokahnykkinn í ágúst og klárum hann,“ segir Halldór.

Vann sér inn næturgistingu með grjótburði
„Hér var þýskur ferðamaður,Robert að nafni, sem hafði mikinn áhuga á steinhleðslunni og vildi ólmur hjálpa til, var duglegur í að bera okkur grjót og vann sér inn fyrir næturgistingu,“ segir Halldór ennfremur kíminn.

 
Hleðslumenn myndinni hér að ofan (frá vinstri):
Einar Ólafsson lærlingur hjá Unnsteini, Robert ferðamaður frá þýskalandi, Halldór Hafdal Halldórsson frá FÍ og Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari.