Kynningarfundir FÍ fjalla- og hreyfiverkefna

Í upphafi árs er gott að setja sér markmið um heilbrigðan lífsstíl.  Líklega er engin líkamsrækt bet…
Í upphafi árs er gott að setja sér markmið um heilbrigðan lífsstíl. Líklega er engin líkamsrækt betri en góð gönguferð eða fjallganga.

Kynningarfundir FÍ fjalla- og hreyfiverkefna hefjast 4. janúar. Upplýsingar um öll verkefnin og dagsetningar kynningarfunda má finna hér neðar.

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjallaverkefnum og hreyfihópum sem snúast um reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap.

Meginmarkmið þessara hópa er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum.

Hér að neðan er stutt yfirlit yfir þessi verkefni en allar nánari upplýsingar má nálgast með því að smella á heiti hvers verkefnis eða beint á viðeigandi undirsíðu hér til hliðar.

Gönguhópur FÍ

Fjallaverkefni FÍ 2021

Árgjald FÍ er innifalið í verði verkefnis.

 

FÍ Alla leið

Fjallaverkefnið Alla leið er verkefni sem undirbýr og þjálfar þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Haustgöngur Alla leið, sem stendur til áramóta. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig.

Þátttakendur verða að hafa einhverja reynslu af fjallgöngum til þess að taka þátt í þessu verkefni.
Umsjón: Hjalti Björnsson.

Kynningarfundur vorverkefnis: Fimmtud. 7. janúar kl. 20. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 73.900

 

FÍ Kvennakraftur I

Kvennakraftur I er æfinga- og útivistarverkefni fyrir konur sem vilja hreyfa sig úti í náttúrunni en fá að auki leiðsögn íþróttafræðings við styrktarþjálfun heima fyrir. Verkefnið stendur frá miðjum janúar og út mars. Hver vika samanstendur af fjallgöngu eða röskri göngu í náttúrustígum á virku kvöldi, tveim styrktaræfingum og einni teygjuæfingu. Að auki fer hópurinn í göngu eða fjallgöngu aðra hverja helgi. Verkefnið er hugsað fyrir konur sem vilja koma sér í gott fjallaform.

Umsjón: Kolbrún Björnsdóttir

Kynningarfundur: Miðvikud. 6. janúar. Kl. 20. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 90.900

 

FÍ Kvennakraftur II

Kvennakraftur er æfinga- og útivistarverkefni fyrir konur sem vilja hreyfa sig úti í náttúrunni en að auki fá leiðsögn íþróttafræðings við styrktarþjálfun heima fyrir.

Verkefnið stendur frá miðjum janúar og út mars. Hver vika samanstendur af einu rólegu náttúruhlaupi á virku kvöldi, tveimur styrktaræfingum og einni teygjuæfingu. Aðra hverja helgi er svo farið í fjallgöngu. Verkefnið er fyrir konur sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum og hlaupum.

Umsjón: Kolbrún Björnsdóttir

Kynningarfundur: Miðvikud. 6. janúar. Kl. 20. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 90.900

 

FÍ 52 fjöll

Í tilefni af því að 10 ár eru síðan þetta vinsæla verkefni hóf göngu sína förum við aftur af stað með örlítið breyttu sniði. Á dagskránni eru 52 fjallatindar sem dreifast á kvöldgöngur sem farnar eru á mánudögum kl. 18:15, dagsferðir sem verða um helgar kl. 9, með örfáum undantekningum sem verða auglýstar síðar, og þremur helgarferðum. Mikil áhersla á fræðslu, jarðfræði, örnefni og sögur af þeim svæðum sem gengið verður um. Þessi afmælisútgáfa gæti höfðað til þeirra sem voru okkur samferða þegar verkefnið var í gangi en ekki síður til þeirra sem vilja kynnast þessu þjóðsagnakennda verkefni.
Verkefnið er opinn öllum þeim sem vilja hreyfa sig, stunda útivist, njóta náttúrunnar og kynnast skemmtilegum fjallavinum.

Umsjón: Hjalti Björnsson, Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Kynningarfundur verkefnis: Þriðjud. 5. janúar. Kl. 20. KYNNINGARFUNDUR
Verð: 152.000

 

FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið

FÍ Fyrsta skrefið og FÍ Næsta skrefið eru marghliða heilsuátaksverkefni sem byggjast á reglubundnum göngum á þægileg fjöll. Göngurnar eru sambland af heilsurækt og fræðslu í bland við skemmtun og ýmsan fróðleik. Gengið er á hraða við flestra hæfi.

FÍ Fyrsta skrefið starfar að vori frá janúar til maí og lokaverkefni hópsins er ganga á Snæfellsjökul. FÍ Næsta skrefið er sjálfstætt framhald, starfar frá september fram í desember. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig.
Verkefnið er fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref á fjöll og þá sem vilja koma sér aftur að stað eftir hlé.

Umsjón: Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson.

Kynningarfundur: Mánud. 4. janúar. Kl. 20.00. KYNNINGARFUNDUR
Verð: 79.900

FÍ Meistaradeildin

Meistaradeildin er nýtt verkefni á vegum Ferðafélags Íslands. Verkefnið er fyrir fólk sem hefur mikla reynslu af fjallgöngum og er í góðu formi. Verkefnið samanstendur

af 15 göngum og hápunkturinn er ganga á Hvannadalshnúk um Virkisjökul og Dyrhamar.

Mikil áhersla er lögð á öryggi þátttakenda og eru umsjónarmenn þaulvanir fjalla- og björgunarsveitarmenn og er hámarksfjöldi í hópnum 24. Þetta er einstakt tækifæri til að gera árið að einu samfelldu fjallaævintýri.

Verkefnið er fyrir þá sem hefur mikla reynslu af fjallgöngum og er í góðu formi.

Umsjón: Hjalti Björnsson og Ragnar Antoníussen.

Kynningarfundur: Þriðjud. 5. janúar kl. 18:30. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 76.900

 

FÍ Göngur og gaman

Göngur og gaman er fjallaverkefni sem byrjar bæði á vorönn, sumarönn og haustönn. Það er fyrir alla sem vilja njóta útivistar og hafa gaman á fjöllum.

Megináhersla verkefnisins er að kynnast ákveðnum svæðum í gegnum margvíslega göngur og fræðslu. Í vorverkefninu (jan.-maí) kynnumst við Kjósinni og Hvalfirðinum, Esjan er verkefni sumarsins (maí- jún) og í haust (sept.- nóv.) förum við vítt og breytt um Reykjanesið. Gengið er annað hvert miðvikudagskvöld og annan hvern laugardag.
Verkefni fyrir þá sem vilja ganga á meðalerfið fjöll og fyrir þá sem eru í meðalgóðu gönguformi en hafa reynslu af fjallgöngum.

Umsjón: Edith Gunnarsdóttir.

Kynningarfundur: Mánudag. 11.janúar kl. 20.30. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 55.900

 

FÍ Jóga og göngur

FÍ Göngur og jóga er verkefni sem starfar bæði á vorönn og haustönn. Það er fyrir alla sem vilja njóta útivistar ásamt því að læra aðferðir til að draga úr streituviðbrögðum og ná slökun. Vorverkefnið (feb -maí) og haustverkefnið (sept – nóv).Í hverri viku er farið í eina stutta og rólega gönguferð í nágrenni Reykjavíkur og í einn jógatíma þar sem áhersla er á teygjur og djúpslökun. Þetta er hópur fyrir þá sem vilja njóta en ekki þjóta og langar til að gera útivist og jóga að lífsstíl.
Verkefnið er bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Umsjón: Edith Gunnarsdóttir.

Kynningarfundur: Mánudag. 11. janúar kl. 19.30. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 83.900

 

FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Fjöllin sem fyrir valinu verða teljast létt til miðlungs erfið en miðað er við að ganga rólega.

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 49.900

 

FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi en í verkefninu Léttfeta. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi.

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 49.900

 

FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á að minnsta kosti 24 fjöll yfir árið í 20 dagsferðum og tveimur helgarferðum. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.
Kynningarfundur: Þriðjud. 12. janúar. KYNNINGARFUNDUR

Verð: 79.900

 

FÍ Útivistarskólinn

Útivistarskólinn er fyrir þá sem langar að prófa útivist og fjallgöngur en hafa litla sem enga reynslu af útivist. Byrjað verður á að hittast í húsnæði FÍ í Mörkinni og fara yfir þann búnað sem þarf að eiga til að líða vel í fjallgöngum. Rætt verður um þá tækni í útivist sem gott er að kunna skil á, svo sem notkun á snjallforritum sem gaman er að hafa til að skoða tölfræði ferðanna og þ.h. Farið verður yfir næringu í fjallaferðum, leiðaval, öryggi og margt fleira. Þetta eru tvö námskeið sem hefjast 10. febrúar og 24. mars. Hvert námskeið stendur í sex vikur og samanstendur af einum fræðslufundi og fimm fjallgöngum á miðvikudagskvöldum. Markmið námskeiðsins er að gera þátttakendur hæfa til að fara í styttri göngur í nágrenni Reykjavíkur við góðar aðstæður eða taka þátt í fjallaverkefnum FÍ.
Umsjón: Hjalti Björnsson.
Kynningarfundur: Fimmtud. 7. janúar kl. 18:30. KYNNINGARFUNDUR
Verð: 53.900

 

FÍ Hjól og fjall

Hjól og fjall fór af stað hjá FÍ sl. haust með góðri þátttöku. Á vordögum verður verkefnið endurtekið. Það hefst í byrjun apríl og stendur fram í byrjun júní. Á þessum tíma hittast þátttakendur 12 sinnum í styttri og lengri hjólaferðum um kvöld og helgar. Hluti af hverri ferð er stutt fjallganga eða gönguferð. Í anda FÍ er lögð áhersla á leiðsögn, sögur og fræðslu. Þetta er frábær leið til að skoða náttúruna og reyna á sig með fjölbreyttum hætti. Þátttakendur þurfa að eiga fjallahjól. Erfiðleikastig er að 2 hjól af 4.
Umsjón: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.
Kynningarfundur: Auglýstur síðar á heimasíðu FÍ og fésbókarsíðu.
Verð: 48.900

FÍ Fjallatindar

FÍ Fjallatindar er námskeið hannað sérstaklega með Hvannadalshnúk í huga. Það spannar 20 vikur sem munu fara í undirbúning fyrir þessa skemmtilegu en jafnframt krefjandi göngu. Við munum læra göngutækni, öndun, hvernig á að klæða sig og hvað skal borða ásamt mörgu öðru sem kemur sér vel að kunna í fjallgöngumÁ þessum 20 vikum göngum við á hin ýmsu fjöll í kringum höfuðborgarsvæðið, allt frá stuttum og lágum til lengri og hærri, allt með hnúkinn fagra í huga.Þetta er frábært námskeið fyrir þá sem hafa dreymt um að fara á hnúkinn. Nú er tækifæri til að breyta þeim draumum í veruleika!
Umsjón: Tomasz Þór Veruson.
Kynningarfundur: 26. janúar KYNNINGARFUNDUR
Verð: 73.900

FÍ Hátindar

Frábært prógram sem spannar heilt ár og er stútfullt af skemmtilegum fjöllum. Við förum í tvær göngur í mánuði, eina styttri og eina lengri. Úrvalið er mikið, allt frá lágum fellum til hæsta fjalls Íslands utan jökla.

Þetta prógram hentar vel þeim sem eru með grunn í fjallamennsku og treysta sér í lengri og hærri fjöll.
Umsjón: Tomazs Þór Veruson.
Kynningarfundur í byrjun febrúar
Verð: 75.900

 

 

 

FÍ Gönguferðir eldri og heldri

Það er fátt eins heilsubætandi og góður göngutúr nema þá kannski göngutúr í skemmtilegum hópi. Ferðafélag Íslands heldur úti gönguferðum fyrir eldri og heldri félaga FÍ. Verkefnið hefst 12. apríl og stendur til 17. júní. Gengið verður tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, ýmist í Elliðaárdal eða Öskjuhlíð. Göngurnar hefjast kl. 10 á morgnana og eru um 60-90 mínútna langar. Á mánudögum hittist hópurinn við Árbæjarlaug og á fimmtudögum við Perluna.
Umsjón: Ólöf Sigurðardóttir.
Verð: 27.900

 

FÍ Fjallahlaup


FÍ Fjallahlaup er æfingaverkefni sem stendur í rúma 9 mánuði, frá október fram í miðjan júlí. Markmið er að koma þátttakendum í gott fjallahlaupaform og undirbúa þá fyrir Laugavegshlaupið 17. júlí 2021. Þetta verkefni er einnig opið fyrir þá sem vilja frekar stefna á styttri fjallahlaupakeppnir. Verkefnið er hugsað fyrir venjulegt fólk sem telur sig vera í ágætis formi og hreyfir sig reglulega og vill komast í gott fjallahlaupaform, setja sér metnaðarfull markmið og kynnast fjölbreyttum slóðum í náttúru Íslands í skemmtilegum félagsskap.

Búið er að loka skráningu í verkefnin 2021.
Umsjón: Kjartan Long.

 

FÍ Landvættir og FÍ Landvættir ½

FÍ Landvættir er 10 mánaða æfingaverkefni sem byrjar síðla hausts og stendur fram í ágúst árið eftir. Takmarkið er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna, þ.e. 50 km skíðagöngu, 60 km fjallahjólreiðum, 2,5 km útisundi og 25 km fjallahlaupi. FÍ Landvættir ½ æfa jafn lengi og taka þátt í sömu fjórum þrautum en vegalengdirnar eru um helmingi styttri. Þetta eru hvoru tveggja æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Umsjón: Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Búið er að loka skráningu í verkefnin 2021. Kynningarfundur fyrir árið 2022 verður í október 2021.

 

FÍ Landkönnuðir

FÍ Landkönnuðir er lokaður hópur ævintýrafólks sem tekst á við margs konar áskoranir úti í náttúrunni. Meginmarkmið hópsins er að fylla lífið af ævintýrum, vera á iði og hafa gaman. Lögð er áhersla á fjölbreytt útiævintýri og góða fræðslu. Hópurinn hittist að meðaltali einu sinni í mánuði og stundar jöfnum höndum fjallahjólreiðar, vatnasund, fjallgöngur, kajakróður, klettaklifur, náttúruhlaup og fjallaskíði. Meðal verkefna eru vetrarferðalög á gönguskíðum og Vesturgötu-þríþrautin.

Umsjón: Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Búið er að loka skráningu í verkefnið 2021. Kynningarfundur fyrir árið 2022 verður í október 2021