Stjórn Ferðafélags Íslands samþykkir málstefnu

Stjórn Ferðafélags Íslands samþykkti í haust íslenska málstefnu, sem unnið verður eftir innan félagsins. Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ, segir stöðu íslenskunnar vera áhyggjuefni og hvetur önnur félagasamtök til að leggja íslenskunni lið.

„Vandað íslenskt mál hefur lengi verið í hávegum haft innan félagsins,“ segir Ólafur Örn, en Ferðafélagið var stofnað árið 1927. „Þar ber fyrst að nefna Árbók Ferðafélagsins, en úrvalslið hefur áratugum saman starfað í ritnefnd og við umsjón og frá upphafi hafa valinkunnir höfundar skrifað þessar bækur. Krafan um gæði hefur vaxið mikið og þá ekki aðeins um vandað islenskt mál og góðar ljósmyndir heldur eru nú gerðar fræðibókakröfur til útgáfunnar hvað varðar tilvísanir, heimildir og nafnaskrár.

Innan Ferðafélagsins hafamenn ekki eingöngu áhuga á Íslandi heldur líka íslenskunni og málstefna hefur áður verið rædd innan félagsins. Það sem ýtti við okkur núna var annars vegar að við finnum að það er sótt að tungumálinu úr ýmsum áttum og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að styrkja íslenskuna. Hins vegar fannst okkur vel við hæfi að samþykkja málstefnu til að styðja tungumálið á aldarafmæli fullveldisins.“

Viljum vanda okkur
Ólafur Örn segir að auk beinna samskipta sendi Ferðafélagið frá sér margvíslegar upplýsingar, auglýsingar og leiðbeiningar. „Við viljum vanda okkur í allri framsetningu, hvort sem það er á vegvísum á fjöllum eða í smáritum ýmiss konar. Þetta þarf allt að vera á vönduðu máli. Við þurfum stöðugt að veita upplýsingar á íslensku og erlendum tungumálum, ekki síst ensku, og vinnum með ýmiss konar tækni í okkar starfi. Alls staðar þarf að gæta að því að gera skýran greinarmun á erlendum tungum og íslensku og að íslenski textinn til dæmis á upplýsingaskiltum standi framar en sá erlendi.“

Í málstefnunni segir að starfsfólk FÍ skuli nota íslensku í störfum sínum nema þar sem aðstæður krefjist þess að það noti önnur tungumál, t.d. í ráðgjöf, viðskiptum og samskiptum við erlenda ferðamenn. Allar upplýsingar um þjónustu, útgefið efni, fundargerðir, heimasíðu og önnur gögn skuli vera á vandaðri og auðskiljanlegri íslensku. Hvað varði starfsfólk af erlendum uppruna segir að þekkingu þess og menntun skuli meta að verðleikum og veita því aðstoð til að nýta hana samhliða því að ná góðum tökum á íslensku máli.

Fleiri komi að málum
Ólafur Örn segist ekki vita til þess að sambærileg félagasamtök hafi samþykkt sérstaka íslenska málstefnu. Hann segist vilja brýna fleiri til að sinna málinu með markvissum hætti.
„Það væri til dæmis ánægjulegt ef öflug samtök á borð við Landsbjörg og slysavarnafélögin tækju til máls, en þau eru á ýmsan hátt í svipaðri stöðu og við. Einnig íþróttahreyfingin, sem er með æsku landsins innan sinna vébanda. Þó svo að ég nefni þessi tvenn stóru samtök er það alls ekki vegna þess að þar sé slæmt málfar, heldur þurfa fleiri sterkir hópar að koma að því að styðja íslenskt mál með skipulögðum hætti,“ segir Ólafur Örn.

Í niðurlagi málstefnunnar segir að ráðgjöf og gæðaeftirliti með góðu málfari á útgefnu efni og í upplýsingamiðlun á vegum FÍ verði komið á í samræmi við málstefnuna. Þá segir að stjórn félagsins skipi sérstaka málnefnd sem fylgi stefnunni eftir og skeri úr um ágreiningsatriði. Ólafur segir að stjórninni til halds og trausts sé Guðrún Kvaran, íslenskufræðingur og prófessor emeritus.