Það finna allir eitthvað fyrir sig í ferðaáætlun FÍ

Gestur okkar að þessu sinni í Áttavitanum, hlaðvarpi Ferðafélags Íslands, er Sigrún Valbergsdóttir sem er einn af þeim fjölmörgu öflugu og hæfileikaríku félagsmönnum sem mynda Ferðafélag Íslands.  Sigrún er er fararstjóri, kennari í leiðsöguskólanum, leikstjóri og ekki síst varaforseti Ferðafélags Íslands og formaður ferðanefndar ferðafélagsins.

Það finna allir eitthvað fyrir sig í ferðaáætlun FÍ
Sigrún segir úrval ferða vera gífurlega mikið, allt frá léttum ferðum yfir í mjög krefjandi ferðir auk talsverðra nýjunga. Má þar meðal nefna fjallaskíðaferðir sem hafa verið kærkomin og vinsæl viðbót við úrval ferða FÍ

Ferðafélag barnanna og Ferðafélag ungafólksins ný vídd
„Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins hefur sett alveg nýjar víddir í starfsemi félagsins,“ segir Sigrún í viðtalinu og nefnir einnig hvað það er mikilvægt að hlúa að yngri kynslóðum og kynna þeim fyrir þessari hollu og góðu hreyfingu sem fjallaferðir eru.

Fróðir fararstjórar
Sigrún nefnir fróða fararstjóra sem einn af aðalstyrkleikum Ferðafélags Íslands.  FÍ er sannarlega vel mannað fróðum mönnum og konum sem er spennt að fræða ferðalanga um allt milli himins og jarðar. „Fróðleikurinn gerir svæðið meira lifandi,“ segir Sigrún.

Hugurinn ber þig hálfa leið
„Ef þú hefur áhuga á því að standa upp úr sófanum þá getur þú strax meira en þú hélst að þú gætir.“

Að lokum hvetur Sigrún fólk að vera óhrætt að hafa samband við fararstjóra og skrifstofu FÍ til að fá ráðleggingar með ferðir og útbúnað.