Tvö til­felli sund­mannakláða í haust

Tvö til­felli hafa komið inn á borð Um­hverf­is­stofn­un­ar nú í haust þar sem fólk hef­ur sýkst af sund­mannakláða eft­ir að hafa farið í heitu laug­ina í Land­manna­laug­um. Kláðinn hef­ur komið upp oft­ar en einu sinni áður og árin 2003 og 2004 fengu þúsund­ir sund­gesta sýk­ingu. Var hún þá rak­in til einn­ar and­ar­kollu sem hafði verpt við baðstaðinn og alið upp unga sem all­ir reynd­ust smitaðir.

Há­kon Ásgeirs­son, teym­is­stjóri Um­hverf­is­stofn­un­ar á Suður­landi, seg­ir í sam­tali við mbl.is að þótt sýk­ing­in sé ekki tal­in hættu­leg þá valdi hún fólki mikl­um óþæg­ind­um.

Í grein Karls Skírn­is­son­ar, starfs­manns Til­rauna­stöðvar­inn­ar á Keld­um, um sund­mannakláða kem­ur fram að lirf­urn­ar sem valdi sýk­ing­unni séu fuglasníkju­dýr og hafi aðeins fund­ist í stokkönd­um og duggönd­um hér á landi. Lirf­urn­ar hiki ekki við að bora sig inn í lík­ama spen­dýra eigi þær kost á því. Verða þá til kláðaból­ur þegar ónæmis­kerfi manns­lík­am­ans nær að stöðva lirf­urn­ar. Sýni menn hins veg­ar ekki ónæmisviðbrögð hafa lirf­urn­ar náð að smjúga óáreitt­ar inn í lík­amann. Þær ná þó aldrei að þrosk­ast eðli­lega held­ur drep­ast fljót­lega.

Há­kon seg­ir að starfs­menn Um­hverf­is­stofn­un­ar fylg­ist með sýk­ing­um sem teng­ist Land­manna­laug­um, enda sé svæðið hluti af friðlandi sem stofn­un­in beri ábyrgð á. Til að reyna að stöðva út­breiðslu sýk­inga í vatn­inu hef­ur stofn­un­in reynt að koma í veg fyr­ir að þess­ar tvær anda­teg­und­ir hafi viðveru í Land­manna­laug­um. Eru þær veidd­ar á þeim tíma sem heim­ilt er að veiða þær, en Há­kon bend­ir á að um sé að ræða mjög veik dýr ef þau eru smituð.

Smit sem þessi geta komið upp í öll­um nátt­úru­laug­um þar sem þess­ar aðstæður eru fyr­ir hendi, það er ef þess­ar tvær teg­und­ir anda eru á svæðinu.

Sýk­ing­arn­ar geta komið upp á hvaða árs­tíma sem er sam­kvæmt rann­sókn­um sem Karl hef­ur gert á sund­mannakláða og önd­un­um sem bera lirf­urn­ar. Auk þess sem sýk­ing­in kom upp árin 2003 og 2004 hef­ur eitt­hvað borið á henni síðan og varaði Ferðafé­lag Íslands meðal ann­ars við að nokk­ur til­felli hefðu komið upp árið 2009.