Áætlun FÍ 2018 komin út

Þá er hann loksins kominn, bæklingurinn sem allir hafa beðið eftir: Áætlun FÍ 2018, stútfullur af lengri jafnt sem styttri ferðum þar sem allt landið er undir. 

Bókanir í ferðir hefjast í dag 9. janúar og hægt er að bóka í allar ferðir beint hér á heimasíðunni. Sjá yfirlit yfir allar ferðir FÍ 2018. 

Alls eru ferðirnar um 200 talsins. Þar eru til dæmis hinar sígildu sumarleyfisferðir þar sem ferðast er um byggðir og óbyggðir, til stranda og upp til fjalla, ýmist með allt á bakinu eða farangurinn er fluttur á milli staða. Í áætluninni er einnig mikið úrval af dagsferðum, fræðsluferðum, söguferðum og skemmtiferðum. Boðið er upp á ferðir um allt land, allt frá göngustígum í þéttbýli, um grænar sveitir, óbyggðir og upp á hæstu tinda, þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fjölmörg og fjölbreytileg fjallaverkefni er að finna í áætluninni og einnig lýðheilsu- og hreyfiverkefni sem njóta sífellt meiri vinsælda. Auk alls þessa má nefna úrval af námskeiðum, gönguskíða- og fjallaskíðaferðum.

„Það er margsannað að það að ganga er langbesta leiðin til að viðhalda góðri heilsu, rífa sig upp úr veikindum og koma í veg fyrir margvíslegan heilsufarsvanda,“ segir Sigrún Valbergsdóttir, formaður ferðanefndar FÍ, og fagnar því að lýðheilsuverkefni félagsins hafi verið stórefld á síðustu árum.

Eins er Sigrún ánægð með að það sé að komast inn í vitund almennings að Ferðafélagið sé ekki aðeins fyrir fertuga og eldri, heldur flykkist nú yngra göngufólk í Ferðafélag barnanna og Ferðafélag unga fólksins. „En fyrst og fremst er það ánægjulegt að sífellt fleiri vilja kynnast náttúrunni með því að leggja land undir fót, upplifa fegurð þess og margbreytileika og öðlast þar með ómetanlega reynslu.“

Á meðal nýjunga eru eftirtaldar þrjár ferðir: „Fossar og himinblá vötn“, þar sem ferðinni er heitið alla leið norður í Ófeigsfjörð á Ströndum en í þessari ferð verður gengið upp á Ófeigsfjarðarheiði að Hvalárvatni og síðan niður með ánni og fossunum sem nú eru sem mest í umræðunni vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda. Einnig mætti nefna ferðina „Eyðibyggðir og fjöll í Fjörðum og á Látraströnd“, þar sem Hermann Gunnar Jónsson leiðir ferð um þetta heillandi svæði með allt á bakinu. Þá munu þær Björk Sigurðardóttir og Þórlaug Sveinsdóttir leiða fimm daga ferð um gamla Kjalveg, þar sem gist er í skálum. Yfirskrift þeirrar ferðar er „Kemst þótt hægt fari“.

Ferðaáætluninni hefur verið dreift til félagsmanna og verður ennfremur dreift með Morgunblaðinu, sem og á upplýsingamiðstöðvar, sundlaugar, bensínstöðvar, biðstofur og víðar á næstu dögum.