Af fæðingu félags

Á Eyjafjallajökli. Úr Árbók FÍ 1931.
Á Eyjafjallajökli. Úr Árbók FÍ 1931.

Ferðafélag Íslands fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Félagið var stofnað með formlegum hætti þann 27. nóvember 1927 í svokölluðum Kaupþingssal í húsakynnum Eimskipafélags Íslands. Viðstaddir stofnun félagsins voru 63 fundargestir.

Þessir fundargestir skiptust þannig að átta þeirra, hér um bil einn áttundi, voru kvenkyns en aðrir voru karlar. Þegar litið er til kynjaskiptingar ferðahópa að liðnum 90 árum má segja að þetta hlutfall hafi snúist við því karlar eru líklega um það bil áttundi partur af hverjum gönguhóp á vorum dögum.

Mullersæfingar á fæðingarfötunum

Ferðafélag Íslands var stofnað í hressandi andvara breytinga sem léku um íslenskt samfélag á þessum tíma. Ísland var óðfluga að breytast úr sveitasamfélagi þar sem margt hafði verið óbreytt um aldir yfir í borgarsamfélag. Í kringum aldamótin náðu flugi hugmyndir um að útivera væri mönnum holl og hið hreina og frjálsa fjallaloft byggi yfir lækningamætti sem fyndist ekki í kolareyk stórborga.
 Í þessum anda urðu til ferðafélög á Norðurlöndunum og fólk stundaði fjallgöngur, sjóböð og loftböð og gerði Mullers-æfingar á fæðingarfötunum í sólskininu.

Ferðafélag Íslands datt ekki fullskapað af himnum ofan. Stofnun félagsins átti sér alllangan aðdraganda sem nú skal rakinn í stuttu máli. 
Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru nokkrir ungir menn í Reykjavík sem áttu sér það sameiginlega áhugamál að ferðast úti í náttúrunni og ganga til fjalla. Á fyrstu áratugum aldarinnar var vegakerfi Íslands afar vanþróað í samanburði við það sem síðar varð og því tækifæri til ferðalaga mun takmarkaðra en síðar varð. Þess vegna leituðu menn helst til fjalla nálægt Reykjavík en langar ferðir til fjarlægari landshluta voru mun fátíðari. 


Nafnlausa félagið

Að öðrum ólöstuðum er rétt að nefna Björn Ólafsson síðar stórkaupmann sem einn helsta frumkvöðul að stofnun Ferðafélags Íslands. Björn var harðduglegur athafnamaður í Reykjavík og fékkst við margt eins og athafnaskálda er siður. 
Björn hafði mikinn áhuga á fjallgöngum og útivist og ferðaðist talsvert til fjalla. Segja má að hann hafi öðlast nokkra frægð í hópum útivistarmanna árið 1918 þegar hann fór ásamt félögum sínum í alllanga ferð um Þórisdal sem þá var afar fáfarinn staður og varla laus við útilegumannatrú. Um þetta ferðalag skrifaði Björn grein í Eimreiðina sem vakti mikla athygli.

Björn var ekki einn á ferð því með honum voru nokkrir félagar hans úr Nafnlausa félaginu sem starfaði á árunum 1916 til 1926 og lagði einkum stund á ferðalög og fjallgöngur. Eflaust hefur Björn verið einn stofnenda félagsins en meðal félagsmanna voru Helgi Jónasson kenndur við Brennu, Tryggvi Magnússon verslunarmaður, Haraldur Johannessen, Skúli Skúlason ritstjóri, Einar Pjetursson bróðir Sigurjóns á Álafossi, Einar Viðar og fleiri. Lítið er nákvæmlega vitað um starfsemi félagsins nafnlausa því það hélt ekki fundargerðir eða hafði formlega stjórn. Félagið gaf út bækling fyrir erlenda ferðamenn, handbók fyrir Íslendinga á ferðalögum og Björn stofnaði og starfrækti ásamt fleirum Ferðamannafjelagið Heklu sem virðist hafa staðið fyrir skemmtiferðum fyrir Íslendinga fyrir stofnun Ferðafélagsins.

Eina tjald landsins

Sé rýnt enn aftar í rökkur fortíðarinnar rekst sögugrúskari á göngufélagið Hvat sem ungir menn innan vébanda KFUM virðast hafa komið á fót 1906. Hvatsfélagar voru aldrei margir en með vissu er vitað um Helga Jónasson frá Brennu, Skafta Davíðsson og Matthías Ólafsson og Sigurbjörn Davíðsson verslunarmann. Hvatsfélagar fóru í gönguferðir um nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og söfnuðu fé fyrir tjaldi til útilegu sem þeir töldu hið eina sinnar tegundar á Íslandi. 
Þegar litið er yfir lista stofnfélaga Ferðafélags Íslands sem söfnuðust saman í Kaupþingssalnum þá sjást nöfn flestra sem báru uppi starfsemi Nafnlausa félagsins og þar eru einnig Hvatsfélagar því allt er þetta einn og sami hópurinn.

Þannig má með traustum rökstuðningi halda því fram að sá hópur ungra manna sem hafði áhuga á útivist og fjallgöngum hafi að lokum fundið sína endanlegu heimahöfn með stofnun Ferðafélags Íslands eftir að hafa rækt þetta áhugamál sitt í öðrum félögum áður.
 Þess ber að geta að á þriðja áratug 20 aldar var Reykjavík ekki fjölmenn borg og fátt um afþreyingu. Þeir sem höfðu tök á að stunda fjallgöngur og útivist voru einkum menn sem störfuðu við verslunar- eða skrifstofustörf sem áttu tryggan frídag einu sinni í viku. Líkur sækir líkan heim og þessi hópur hefur áreiðanlega þekkst betur en við gerum okkur grein fyrir. 
Í fyrstu lögum Ferðafélagsins segir að helsti tilgangur þess sé að vekja áhuga landsmanna á ferðalögum um landið, sérstaklega þá landshluta sem eru lítt kunnir almenningi. Félagið vill beita sér fyrir byggingu sæluhúsa í óbyggðum, láta ryðja fjallvegi, gefa út bækur um náttúru landsins, atvinnuvegi og þjóðhætti.

Árbækur frá upphafi

Fyrsta sæluhús félagsins var reist í Hvítárnesi 1930 og stendur enn. Útgáfa árbóka Ferðafélags Íslands hófst með árbókinni 1929 og hefur aldrei fallið niður. Sú merka ritröð er einn óbrotgjarnasti bautasteinn sem félagið hefur reist sjálfu sér. Bækurnar varðveita myndir og lýsingar samfélags sem nú er horfið sjónum okkar allra. Þær eru ekki aðeins lýsing lands og þjóðar heldur einnig aldarspegill sem bregður upp mynd af horfnum tíma.

Ferðafélag Íslands hefur með tímanum orðið eins og einn landvættanna, rammíslenskt, þjóðlegt og fornt en þó síungt. Félagið hefur borið gæfu til þess í gegnum árin að beina kröftum sínum að þeim þáttum þar sem uppbyggingar var þörf hverju sinni. Þegar vegir voru engir beitti það sér fyrir lagningu þeirra og brúarsmíði. Þegar skógrækt var heitasta mál sinnar tíðar var félagið þar í broddi fylkingar við plöntun og gróðursetningu. Þegar byggja þurfti upp gönguskála og sæluhús í óbyggðum unnu félagsmenn þrotlaust starf á því sviði. Mikið af þessu ómetanlega starfi var unnið í sjálfboðavinnu.

Ferðafélagsandinn

Innan vébanda félagsins varð þannig til starfsvettvangur fyrir fólk sem hafði brennandi áhuga á útivist, fjallgöngum, náttúruvernd, skógrækt og heilbrigðum lífsstíl. Félagið varð einnig vettvangur fyrir fræðslustarf fyrir almenning með myndasýningum, kvikmyndasýningum og fyrirlestrum. Síðast en ekki síst varð það vettvangur þar sem fólk kynntist og batt bönd vináttu til lífstíðar. Óhætt er að segja að vandfundið sé það félag þar sem fleiri hjónabönd hafa orðið til en einmitt Ferðafélag Íslands.

Um þessar mundir stendur starf félagsins með miklum blóma og enn sjást merki þess að þetta forna félag nær að vera í takt við tímann. Um það vitnar vaxandi áhugi félagsins á lýðheilsu og heilbrigðum lifnaðarháttum sem speglast í tíðarandanum þar sem mikil bylgja áhuga á útivist og fjallgöngum hefur hleypt enn auknum krafti í félagið síðasta áratuginn.

Einhvers staðar á 90 ára ferðalagi kviknaði það sem kallað hefur verið „ferðafélagsandinn“ og er eðli málsins samkvæmt erfitt að lýsa í smáatriðum fyrir þeim sem ekki hefur orðið hans var. „Ferðafélagsandinn“ er líklega mjög áfengur kokteill af lífsorku, áhuga og gleði yfir því að vera til samfara leiftrandi áhuga á öllu sem við kemur sögu lands og þjóðar og náttúrunni.

Erfiður klofningur

Sá sem þessar línur ritar hefur undanfarin ár grúskað í sögu félagsins og orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta margt fólk sem kunni að segja mér sögur af starfi þess á 20 öld. Enginn vafi er í mínum huga að sá atburður í sögu félagsins sem var því erfiðastur var þegar félagið klofnaði um miðjan áttunda áratuginn og annað sambærilegt félag varð til. Eins og oft er í fjölskyldudeilum gengu margir sárir frá þeim leik. Áhrifin til lengri tíma litið voru samt sem áður afar jákvæð því samkeppni hleypti sannkölluðum fítonskrafti í starf Ferðafélagsins og næstu 10 árin eða svo þegar Ferðafélag Íslands og Útivist kepptu hvað ákafast um hylli almennings stórjókst framboð á ferðum beggja félaganna og öllum hljóp mikið kapp í kinn.

Þegar saga Ferðafélagins lítur dagsins ljós verður margt upplýst um baksvið þessara átaka sem ekki hefur áður verið í hámæli. Nú starfa þessi félög hlið við hlið í mesta bróðerni og góðri samvinnu eins og þau hafa reyndar gert síðustu 20 árin eða svo. Fyrir söguritarann var hins vegar ómetanlegt að hitta menn sem voru í miðju þessara átaka. Félag án fólks er ekkert félag. Það er fólk sem heldur félögum gangandi með eldmóði sínum, orku og áhuga. Fólk byggir hús, leggur stíga og sigrast á verkefnum saman og nýtur samvista við náttúruna. Fólk er ekki alltaf sammála og stundum skiljast leiðir en að lokum sameinar ástin á náttúrunni alla.

Páll Ásgeir Pálsson.

Greinin birtist fyrst í tímaritinu Ferðafélaginn, 90 ára afmælisriti Ferðafélags Íslands, sem út kom í byrjun júlí, 2017.