Annt um umhverfið og fer ferða sinna á reiðhjóli

Oddur Sigurðsson ásamt Steingerði Sigtryggsdóttur fjármálastjóra F.Í.
Oddur Sigurðsson ásamt Steingerði Sigtryggsdóttur fjármálastjóra F.Í.

Oddur Sigurðsson jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands kom hjólandi á skrifstofu Ferðafélags Íslands að sækja nýútkomna Árbók F.Í.   Það vakti athygli og ánægju starfsmanna að sjá hve margir félagsmanna voru duglegir að koma hjólandi, en áætlað er að um 15-20 manns hafi komið daglega undanfarna daga á reiðhjóli til okkar að sækja árbókina.

Okkur fannst tilvalið að ræða við Odd um hjólreiðar og umhverfið.

Mikilvægt að minnka umsvif okkar
Oddur segir brýnt að mannkynið minnki umsvif sín eins og kostur er. „Það eru nánast allar ríkisstjórnir veraldar sem stefna að hagvexti og aukningu umsvifa, það er þvert ofan í það sem mannkynið þarf á að halda.  Það er ekki von að vel fari,“ segir Oddur

Búinn að hjóla nær daglega rúm 50 ár
Oddur var við nám í Svíþjóð og notaði þar reiðhjólið sem fararmáta.  „Á námsárunum út í Svíþjóð hjólaði ég mikið og hélt því svo áfram þegar ég kom heim.  Það hefur bara aukist með tímanum frekar en hitt,“ segir Oddur um hjólreiðar sínar.

Holl hreyfing
„Ég vil ekki rafmagnshjól. Það eykur matarlystina að knýja sig áfram af eigin vélarafli. Ég hjóla allt árið, set nagladekkin undir þegar fer að frysta.  Hjólreiðar eru hollar og góðar ef maður slasar sig ekki, ég hef nokkrum sinnum dottið en ekki slasast alvarlega sem betur fer,“ segir Oddur ennfremur.

Jöklar minnka hratt
Oddur hef fylgst með breytingum á jöklum í áratugi. „Það hefur hert mjög á hopinu það sem af er á þessari öld, jafnvel miðað við hlýindatímabilinu á 4. og 5. áratug 20. aldarinnar. Það er afskaplega áberandi víða hvað jökullinn hefur minnkað mikið síðan hann var sem stærstur fyrir um 130 árum. Þetta eru aftakabreytingar sem eru á jöklunum um þessar mundir. Til dæmis víða sunnanlands þar sem jöklar ná niður undir sjávarmál þá eru þetta augljósar breytingar frá ári til árs, sem skipta jafnvel meira en 100 metrum á einu ári.“

Umhverfisvandamál
„Vandamálin sem blasa við eru svo fjölbreytt að það er nokkuð ljóst að mannkynið er búið að búa sér til stórvandamál sem ekki verða umflúin með öllu. En það er hægt að minnka þau með því að hugsa vel sinn gang og taka afstöðu til umhverfismála,“ segir Oddur að lokum og hoppar á hjólið sitt og heldur sinn veg með Árbók Ferðafélags Íslands og glaðning frá F.Í. í farteskinu.