Arion bakhjarl Ferðafélags Íslands

Páll Guðmundsson frá F.Í. og Halldór Harðarson frá Arion banka við undirritun
Páll Guðmundsson frá F.Í. og Halldór Harðarson frá Arion banka við undirritun

Undirritaðir voru á dögunum samningar milli Ferðafélags Íslands og Arion banka þess efnis að bankinn verði aðalsamstarfsaðili og bakhjarl FÍ næstu þrjú árin. Samningnum samkvæmt mun Arion leggja FÍ lið til góðra verka á fjöllum í þágu almennings og ferðamanna í landinu, meðal annars til uppbyggingar göngustíga og fjallaskála. Einnig til að efla öryggismál á fjöllum, náttúruvernd og fleiri samfélagsleg verkefni sem um leið falla undir markmið og tilgang Ferðafélags Íslands.

„Okkur er mikið ánægjuefni að fá þennan góða bakhjarl. Við höfum á síðustu árum staðið fyrir uppbyggingu víða, svo sem á Laugaveginum þar sem framkvæmt hefur verið fyrir háar upphæðir. Þá er félagið öflugt í ýmsum lýðheilsuverkefnum; það er að fá fólk til að hreyfa sig sem gerir öllum gott. Liðsinni Arion banka í þessu er kærkomið og mikilvægt,“ sagði Páll Eysteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.