Fjallaskíði eru algjör snilld

Síðastliðið vor var farið á fjallaskíðum á Sveinstind. Hér leiðir Helgi línuna við stórbrotnar aðstæ…
Síðastliðið vor var farið á fjallaskíðum á Sveinstind. Hér leiðir Helgi línuna við stórbrotnar aðstæður. (Mynd: Ólafur Már Björnsson).

„Það er gríðarleg vakning í þessu sporti, enda er þetta algjör snilld,“ segir Helgi Jóhannesson leiðsögumaður hjá FÍ, og lögmaður, um vaxandi áhuga fólks á fjallaskíðaferðum. Helgi leiðsegir ásamt öðrum nokkrum vinsælum fjallaskíðaferðum í vetur og fram á sumar. 

„Það má eiginlega segja að fjallaskíðun gefi nýja vídd í skíðasportið, bæði hvað varðar fjöll sem farið er á og svo er tímabilið miklu lengra. Það er ekki óalgengt að hægt sé að fara í flottar fjallaskíðaferðir langt fram á sumar hér á landi.“

Fullt af ferðum

Fyrsta fjallaskíðaferðin á áætlun 2018 er 24. mars. Þá verður Eyjafjallajökull þveraður undir leiðsögn Helga, Tómasar Guðbjartssonar og Jóns Gauta Jónssonar.  Þann 5. maí fara svo þeir Helgi og Tómas með hóp á Hvannadalshnúk og 10.-13. maí bjóða þeir upp á Fjallaskíðafjör á Norðurlandi. Þá fara þeir með hóp á Heklu þann 26. maí og fá svo Skúla Júlíusson í lið með sér 15.-17. júní til að skíða á Snæfelli. Ein önnur fjallaskíðaferð er jafnframt á áætluninni, ekki undir leiðsögn Helga því dagana 26.-27. maí verður farið Í Kerlingarfjöll með Örvari Aðalsteinssyni og Hilmari Aðalsteinssyni.

Að auki fær gönguskíðafólk sitthvað fyrir sinn snúð, því 26. febrúar hefst námskeiðið Ferðast á gönguskíðum sem endar á ferð inn í Landmannalaugar og 16.-18. júní fara Brynhildur Ólafsdóttir og Þorvaldur Þórsson með hóp á Hrútfell og Langjökul þar sem notast verður við gönguskíði upp á Langjökul. 

Bókaðu skíðaferð

Fólk á öllum aldri

Það er vel bókað í flestar ferðirnar, segir Helgi. Þegar er orðið uppselt í ferðina á Hnúkinn. Vinsældir ferðanna koma ekki á óvart. Þeim fjölgar á hverju ári sem stunda fjallaskíði. Á bilinu 25-30 manns komast í hverja ferð. Þegar farið er á jökla þarf að ganga í línu með línustjóra. Sex til átta manns eru í hverri línu.  Helgi segir að fólk á öllum aldri komi í ferðirnar og jafnræði sé milli kynja. Sportið hentar öllum, en þó er vitaskuld betra að vera í sæmilegu formi. 

„Í fjallaskíðun er örugglega yfir 80% af tímanum uppgangan en niðurleiðin er stutt í tíma miðað við uppgönguna. Af þessu leiðir að það er miklu skemmtilegra að stunda þetta ef menn eru í sæmilega góðu uppgönguformi.“

Fagmennska og öryggi

Fagmennska og öryggi eru í fyrirrúmi í ferðunum. „Enginn fær að koma með nema vera með allan öryggisbúnað, þ.e. snjóflóðaýli, skóflu og snjóflóðastöng,“ segir Helgi.  „Þá þarf að vera með skíðahjálm og skjólfatnað miðað við aðstæður. Við mælum með að fólk hafi brodda undir skíðin og eins í sumum ferðum þarf brodda á skóna (hefðbundna jöklabrodda) ef brattinn verður of mikill til að skinna upp eða aðstæður af öðrum ástæðum erfiðar.“

Góður fjallaskíðabúnaðar getur verið dýr og ekki víst að allir hafi efni á slíkri fjárfestingu. Hægt er að leigja búnað, eins og t.d. hjá Fjallakofanum.

Hnúkurinn líklega erfiðastur

Helgi segir erfitt að mæla sérstaklega með einhverri einni ferð umfram aðrar.  „Okkur finnst þessar ferðir allar frábærar. Hnúkurinn á skíðum, þverun Eyjafjallajökuls og svo auðvitað Snæfell eru sennilega perlurnar í prógrammi vorsins. En þetta er allt frábært.“

Er einhver ferð sérstaklega erfið?

„Ferðin á Hnúkinn er væntanlega lengsta dagleiðin. En það er gott að njóta þess að renna sér niður eftir að hafa unnið fyrir því með uppgöngunni.“

Helgi hefur sjálfur ekki farið á Hnúkinn áður á skíðum, en fór þó á nágranna hans, Sveinstind, síðastliðið vor sem var mikið ævintýri. Þá hlakkar Helgi líka sérstaklega til þess að fara á Snæfell, en á Snæfell hefur hann ekki farið áður hvorki gangandi né á skíðum. 

Aldrei teflt á tæpasta vað

Eins og gefur að skilja skiptir veðrið miklu máli í fjallaskíðaferðum. Brugðið getur til beggja vona, jafnvel þótt sumar ferðirnar verði farnar þegar líða tekur á sumar. 

„Það er aldrei teflt á tæpasta vað í þessu,” segir Helgi. „Vond veður eru í raun verri kostur á fjallaskíðum en í hefðbundnum göngum því það er varasamt að skíða niður ef blinda er. Þá verður einnig að taka tillit til snjóalaga og huga að snjóflóðahættu, því þótt veðri hafi slotað getur verið óskynsamlegt að fara ákveðnar leiðir vegna snjóflóðahættu þótt veður sé út af fyrir sig gott.“

Að þessu öllu þarf að hyggja vel, segir Helgi. Það er full ástæða til að vara fólk við að fara í fjallaskíðaferðir nema kynna sér a.m.k. grunnatriði varðandi snjóflóð og björgun. Best er auðvitað að fara í skipulagðar ferðir með leiðsögumönnum.

Gott að prófa í Skálafelli

En hvað ef fólk vill prófa fjallaskíði áður en það leggur í heila ferð? Er hægt að mæla með einhverjum auðveldum og öruggum stöðum, t.d. í nálægð við höfuðborgina?

„Þegar ég byrjaði í þessu fór ég oft upp í Skálafell,“ svarar Helgi. „Það er fínt að skinna upp meðfram skíðalyftunni þar og renna sér svo hreinlega niður troðnu brekkuna eða niður af fjallinu norðanmegin og skinna svo aftur upp.“

„Þá er einnig vinsælt að fara á Móskarðshnjúka, þ.e. í raun hefðbundnu gönguleiðina þar upp. Þar er frábær skíðabrekka niður. Það er gott að byrja að æfa sig í öruggu umhverfi t.d. á skíðasvæðunum meðan fólk er að kynnast búnaðinum, læra að setja skinnin á og taka þau af, stilla bindingar á göngu og rennsli o.fl. o.fl. sem vont er að pæla í þegar komið er í erfiðari aðstæður.“