Glimrandi gönguskíðaferð í Landmannalaugar

FÍ Landkönnuðir og þátttakendur í námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum fóru í Landmannalaugar um helgin…
FÍ Landkönnuðir og þátttakendur í námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum fóru í Landmannalaugar um helgina. Mynd: RÓM

Um 20 manna hópur á vegum FÍ Landkönnuða og námskeiðsins Ferðast á gönguskíðum fór inn í Landmannalaugar um helgina á skíðum með púlku í eftirdragi. 

Hálendið var í sparifötunum, segja leiðangursmenn að loknu ævintýrinu. Það var brakandi bjart, en hins vegar þónokkuð kalt. Hópurinn gisti í tjöldum við skálann á laugardagsnóttina. 

„Þessi ferð var stórkostleg í alla staði, við fengum dásamlegt veður og náttúran skartaði sínu fegursta,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir, ein af þátttakendum í ferðinni.  „Þetta var tvöföld áskorun fyrir mig, að fara með púlku í eftirdragi og að gista í mínus 25 gráðum.“ 

„Ég hef ekki áður gist í tjaldi í snjó. Það var frekar fullorðins verð ég að segja.“

FÍ Landkönnuðir - Nýr hópur

Gengið var frá Sigöldu inn í Landmannalaugar á laugardeginum — um 25 km leið — og aftur til baka á sunnudegi. Færið var fremur hart. 

FÍ Landkönnuðir er nýtt verkefni á vegum Ferðafélagsins. Um er að ræða hóp af fólki sem hefur áður lokið Landvættaáskorun á vegum Ferðafélags Íslands.

Þórey VilhjálmsdóttirFarið er í eina ævintýraferð á mánuði, þar sem þátttakendur ögra sjálfum sér í krefjandi aðstæðum í náttúru Íslands.  Umsjónarmenn hópsins eru þau Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall sem einnig annast hóp FÍ Landvætta á ári hverju.

„Það er auðvitað erfitt að finna fúlt fólk á fjöllum en þessi félagsskapur í FÍ Landkönnuðum er svo frábær, það eru allir svo miklir naglar og hrikalega skemmtilegir enda erum við með bestu fararstjóra sem hægt er að hugsa sér,“ segir Þórey.   

„Ég er örmagna eftir helgina en alsæl.“ 

Námskeið í tveimur hlutum

Námskeiðið Ferðast á gönguskíðum fór fram í tveimur hlutum. Annars vegar var haldið fræðslukvöld þar sem farið var yfir hvaða útbúnað er best að nota á vetrarferðalögum á skíðum. 

Þar var til dæmis farið yfir hvernig hægt er að breyta venjulegri snjóþotu í skíðapúlku til að draga farangurinn á eftir, hvernig á að tjalda í snjó og hvernig tjöld, dýnur og svefnpoka er best að nota.  Hins vegar var svo farið í þessa ferð, æfingaferð, inn í Landmannalaugar, með þeim Brynhildi, Róbert og Landkönnuðum. 

Vinsælar Landmannalaugar

Skáli FÍ í Landmannalaugum er opinn, með skálaverði, allan ársins hring. Stöðugur straumur útivistarfólks er í skálann. Hægt er að komast þangað á sérútbúnum jeppum, snjósleðum eða á gönguskíðum, en sá ferðamáti inn í Landmannalaugar hefur mjög verið að ryðja sér til rúms.  Fátt er betra en slík dagleið á fjöllum, í góðu veðri að vetri.