Árbók FÍ 2018 í prentsmiðju

Árbók Ferðafélags Íslands, sem kemur nú út í nítugasta og fyrsta skipti, tekur yfir afar áhugavert og víðlent landsvæði.

Upphérað og öræfin suður af

Fjallað er í máli og myndum um þann hluta Austurlands sem nær í grófum dráttum yfir Fljótsdalshérað (að meðtöldum Fljótsdal, Skriðdal, Jökuldal og Hrafnkelsdal), Brúaröræfi, Vesturöræfi, Kringilsárrana, Kverkfjöll, Krepputungu og Möðrudal á Efra-Fjalli.

Höfundurinn, Hjörleifur Guttormsson, er árbókarlesendum að góðu kunnur. Hann er ferðamaður í besta skilningi þess orðs og hefur átt samleið með FÍ í marga áratugi. Þetta er áttunda árbók frá hans hendi. Hjörleifur átti heima á Austurlandi í mörg ár og býr yfir yfirburðaþekkingu á sögu landshlutans og landfræði sem hann matreiðir einkar læsilega fyrir lesendur.

Byggða- og meningarsögu svæðisins eru gerð skil ásamt náttúrufari héraðsins. Þá er einnig fjallað um óbyggðirnar, bæði þær sem áður voru í byggð og öræfin sem aldrei hafa verið heimkynni manna nema ef til vill útilegumanna um stutt skeið.

Bókin er 518 blaðsíður. Um 580 ljósmyndir og 64 uppdrættir prýða bókina auk rammagreina og yfirlitstaflna. Sem löngum fyrr teiknaði Guðmundur Ó. Ingvarsson kortin og Hjörleifur tók langflestar ljósmyndirnar en fjölmargir aðrir ljósmyndarar eiga einnig myndir í bókinni. Vandaðar atriðisorðaskrár auka verulega notagildi verksins.

Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason. Ritnefnd skipa auk hans Daníel Bergmann, Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran en þau hafa öll lagt árbókum Ferðafélagsins lið í áratugi.

Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega óslitið síðan 1928. Í hverri bók er venjulega lýsing á tilteknu svæði og sögulegt efni tengt því. Nær nú efni bókanna um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækurnar, 91 að tölu, eru því víðtæk Íslandslýsing á þúsundum blaðsíðna. Auk þess er greint frá starfi félagsins og deildanna á landsbyggðinni á síðasta ári.

Greiðsluseðlar í heimabanka

Greiðsluseðill fyrir árgjaldi Ferðafélagsins sem er 7.700  krónur, hefur verið sendur í heimabanka.

Árbókin er nú í prentsmiðju en við segjum fréttir hér á heimasíðu FÍ og samfélagsmiðlum félagsins varðandi hvenær hún verður tilbúin til okkar.  Þar sem árbókin í ár er sérlega vegleg að umfangi viljum við spara í dreifingarkostnaði.  Því biðjum við félagsmenn, þegar þar að kemur,  vinsamlega um að sækja árbókina til okkar í Mörkina 6 og fá þá um leið óvæntan glaðning frá félaginu.

Viltu ganga í Ferðafélagið? Það er einfalt. Smelltu á bláa hnappinn hér að neðan og við tökum vel á móti þér :)

Ganga í FÍ

 

Leiðrétting 18.6.2018

Vegna óviðráðanlegra ástæðna hefur prentun árbókar FÍ tafist. Við reiknum með að geta afhent bókina ferska úr prentsmiðjunni um miðja næstu viku. 

Við biðjumst velvirðingar á þessum töfum.  Við munum láta vita hér á heimasíðunni og á samfélagsmiðlum um leið og bókin verður tilbúin til afhendingar á skrifstofu okkar í Mörkinni 6.