Hrollvekjandi ganga á Úlfarsfell!

Á hverjum fimmtudegi kl. 17:45 býður FÍ upp á opnar og ókeypis göngur á Úlfarsfellið, leiddar af Reyni Traustasyni, fararstjóra. 

Í janúar hefur verið draugaþema í þessum göngum og sögur sagðar af ýmsum óútskýranlegum atburðum sem fólk hefur upplifað.

Næsta fimmtudag, þann 25. janúar verður sjálf drottning íslensku hrollvekjunnar, rithöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir með í för upp á Úlfarsfell, þar sem hún mun ræða við göngumenn. Að auki er alltaf sungið á toppnum og gerðar nokkrar líkamsæfingar eftir kerfi sem kallað er Haukurinn. 

Haldið er af stað á Úlfarsfellið upp frá stærra bílastæðinu í Úlfarsárdal stundvíslega kl. 17:45 og gengið upp á efsta tind, Háahnjúk. Göngumenn fara alls fjóra kílómetra og hækkun á göngu er um 200 metrar. Þetta er þægileg ganga sem þó tekur ágætlega í og tryggir þreyttum ljúfan nætursvefn. 

Gangan er ókeypis og öllum opin. Munið skjólgóðan klæðnað og góða skapið. Að auki er hálka á fjallinu og því nauðsynlegt að vera á broddum og myrkrið kallar líka á höfuðljós. 

Ekki missa af þessu!