Hvítárnesskálinn í endurnýjun lífdaga

Nýja grjóthleðslan tekur á sig mynd. Búið er að endurnýja allan vegginn að innan sem utan.
Nýja grjóthleðslan tekur á sig mynd. Búið er að endurnýja allan vegginn að innan sem utan.

Verið er að vinna að kærkominni yfirhalningu á skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi við Hvítárvatn á Kili.

Skálinn var orðinn ansi illa farinn, gólfið í anddyrinu ójafnt og veggirnir að ganga inn. Síðasta vor var byrjað á því að meta skemmdir og kortleggja verkið og síðan var hafist handa við að laga og skipta út torfveggjum á langhliðum skálans og hlaða þar upp grjóthleðsluveggi til að koma skálanum í sína upprunalegu mynd.

Byrjað var á langhliðinni sem veit í norðvestur og liggur eldhúsmeginn í skálanum enda var sú hlið skálans verst farin. Grjóthleðslan hefur reynst mikið verk og erfitt. Notast er við það grjót sem fyrir var í veggnum ásamt grjóti af staðnum. Um 100 tonn af grjóti fara bara í þessa langhlið skálans og ekkert af þessum grjótburði og grjótvinnu er hægt að gera með vélum, allt er borið og hlaðið í höndunum.

Vinnu við þessa langhlið er nú að ljúka og vonir standa til að hægt verði að ljúka þessari grjóthleðslu nú í haust áður en snjór leggst yfir Kjöl. Búið er að skipta um og hlaða vegginn að utan að mestu, lagfæra eldhúsið og skipta um panel að innanverðu.

Hvítárnes   Hvítárnes

Hvítárnesskálinn er einn fallegasti skáli félagsins en jafnframt sá elsti, byggður árið 1930. Húsið er byggt í þjóðlegum, rómantískum anda með svipmóti gamla íslenska torfbæjarins. Skálinn er friðaður og miklu skiptir að vandað sé til verka og húsið endurgert eins og auðið er í sinni upprunalegu mynd.

Þessi yfirhalning á skálanum núna er unnin í samvinnu við Minjastofnun og margir hafa lagt hönd á plóginn. Einn fremsti hleðslumeistari landsins, Unnsteinn Elíasson frá Ferjubakka, hefur haft veg og vanda af grjóthleðslunni sem er listilega gerð. Halldór Hafdal Halldórsson hefur leitt verkið fyrir hönd FÍ og Hjörleifur Stefánsson, arkitekt og Ingólfur Eldjárn hafa verið ráðgjafar FÍ og umsjónarmenn. 

Næsta sumar er stefnt að því að endurnýja langhliðina hinum megin í skálanum. Vonir standa til að þegar yfir lýkur muni Hvítárnesskálinn aftur hafa náð sínu upprunalega og fallega yfirbragði og geta staðið sem ein helsta táknmynd Ferðafélags Íslands um ókomin ár.

Hvítárnes grjóthleðsla  Hvítárnes suðurveggur