Lýðheilsugöngur FÍ - samstarf við VÍS

Skrifað undir samstarfssamning í Heiðmörk. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ skrifar undir samsta…
Skrifað undir samstarfssamning í Heiðmörk. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ skrifar undir samstarfssamninginn fh FÍ. Guðný Helga Herbertsdóttir markaðsstjóri VÍS og Sigrún Þorsteinsdóttir forvarnarfulltrúi VÍS, ásamt Ólafi Erni Haraldssyni forseta FÍ og Ólöfu Sívertssen verkefnisstjóra hjá FÍ., öll með bros á vör og ánægð með samstarfið.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands – samstarf við VÍS

Ferðafélag Íslands (FÍ) og VÍS hafa skrifað undir samstarfssamning varðandi Lýðheilsugöngur FÍ sem verða á öllu landinu nú í september. Göngurnar eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Ráðgert er að göngurnar fari fram alla miðvikudaga í septembermánuði kl. 18:00.  Göngurnar verða í nærumhverfi hvers bæjarfélags og verða fjölskylduvænar og taka u.þ.b. 60-90 mín.

Tilgangurinn með verkefninu er sá að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

 VÍS kemur myndarlega að verkefninu enda þekkt fyrir áherslu á forvarnir, heilsueflingu og öryggi. Með þessu samstarfi vilja allir hlutaðeigandi leggja sitt af mörkum til að stuðla að bættri lýðheilsu landans þar sem horft er til líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar auk öryggis- og umhverfisþátta. Faglegir samstarfsaðilar verða Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið.

 Ferðafélag Íslands og VÍS hvetja íbúa sveitarfélaga landsins til þess að taka endilega þátt í þessu skemmtilega og heilsueflandi verkefni, hvort sem um er að ræða skipulagningu á göngum eða almenna þátttöku á göngudögunum.

Ólöf Kristín Sívertssen var í maí sl. ráðin verkefnisstjóri hjá FÍ og vinnur nú að undirbúningi lýðheilsuganganna.

Lifum og njótum!